„Fyrr í morgun gekk forsætisráðherra á fund minn vegna þeirra tíðinda að ráðuneyti hans nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings á Alþingi. Forsætisráðherra baðst því lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Ég féllst á þá lausnarbeiðni en fól forsætisráðherra og ráðuneyti hans að sitja áfram uns ný ríkisstjórn hafi verið mynduð í samræmi við stjórnskipun landsins.“
Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við fjölmiðla að loknum fundi sínum með forsætisráðherra á Bessastöðum í dag.
„Á fundi okkar ræddum við einnig þá eindregnu ósk allra þingflokka að þing verði rofið og gengið til kosninga innan fárra vikna. Eftir hádegi mun ég kalla leiðtoga annarra stjórnmálaflokka á þingi á minn fund og fá staðfest sjónarmið þeirra um þingrof og kosningar,“ sagði Guðni ennfremur.
Að því loknu má vænta frekari tíðinda í þeim efnum að söng forseta. Eftir helgi mun Bjarni Benediktsson forsætisráðherra aftur ganga á fund forseta.
„Hún er óvenjuleg ef ekki einstæð en það er skylda og ábyrgð þingmanna að bregðast við þeirri stöðu,“ sagði Guðni, spurður um skoðun sína á þeirri stöðu sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum.
„Það er líka í mínum verkahring þannig að nú einhendum við okkur í það og sjáum til þess að hér á landi sé ríkisstjórn. Göngum svo til kosninga og sjáum hver vilji kjósenda verður í framhaldinu og fáum þá nýja stjórn,“ bætti Guðni við.
Starfstjórninni ber ekki að gera neitt annað en það sem nauðsyn krefur frá degi til dags, hver ráðherra í sínu ráðuneyti, að sögn Guðna. „Sé vilji til þess innan þingsins að skipa nýja ríkisstjórn sem geti að minnsta kosti varist vantrausti, þá kemur sú staða upp og við tökum á því,“ sagði forsetinn.
Hann var jafnframt spurður hvort hann hefði áhyggjur af annarri stjórnarkreppu.
„Stjórnarkreppa er hugtak sem hefur verið notað við þessar kringumstæður og það er stjórnarkreppa þegar ráðuneyti hefur beðist lausnar. En við göngum til kosninga má fullyrða, og að því loknu þegar mál hafa skipast á ný á þingi þá myndum við nýja ríkisstjórn. Þetta er ekki flókið að því leyti þannig að ég hef ekki áhyggjur því að ég veit og vænti þess og treysti því að þingmenn og ráðherrar geri grein fyrir ábyrgð sinni og skyldum,“ svaraði Guðni.
Næst á fund forseta í dag er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem mætti til Bessastaða klukkan eitt. Þá koma formenn flokkanna koll af kolli á fund forseta, í röð eftir stærð þingflokks, en síðastur mætir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar klukkan 16:45.
Er tilgangur þeirra funda sá að sögn forseta að fá staðfest sjónarmið þeirra um þingrof og kosningar. „Hafa þeir ákveðnar óskir um kjördag í huga til dæmis og það er í mínum verkahring að vita það fyrir víst áður en frekari skref verða tekin í þeim efnum,“ sagði Guðni.
Innan við ár er síðan að loks tókst að mynda ríkisstjórn eftir langar og erfiðar stjórnarmyndunarviðræður. Guðni segir það vera ákveðin vonbrigði að nú ekki hafi tekist betur til. „Já vissulega, en þetta er gangur stjórnskipunarinnar í okkar landi og það ber að taka því sem að höndum ber,“ sagði Guðni.
Fréttin hefur verið uppfærð.