Flestir stefna á fund fyrir kosningar

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2013.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flestir stjórnmálaflokkar landsins stefna að því að halda flokksfundi fyrir þingkosningar. Dagsetning kosninganna liggur ekki fyrir að svo stöddu en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra stefnir á að þær fari fram 4. nóvember. Helgina 3. til 5. nóvember stóð til að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að flýta eða fresta fundinum.

Við athugun mbl.is á flokksfundum fyrir kosningar sögðu flestir viðmælendur mbl.is að stjórnarslitin hafi borið brátt að svo enn ætti eftir að taka endanlegar ákvarðanir um flokksþing fyrir kosningar.

Framkvæmdarstjórn Samfylkingarinnar kemur saman síðdegis á morgun og tekur ákvörðun um landsfund flokksins, segir Þorgerður Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri Samfylkingarinnar, en boðað hafði verið til landsfundar í Menntaskólanum í Hamrahlíð dagana 27. til 28. október næstkomandi.

Frá landsfundi Samfylkingarinnar.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Viðreisn stefndi á landsþing eftir áramót og segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, að ekki sé búið að taka ákvörðun um annað. „Það hefur ekkert verið tekið til umræðu að endurskoða það,“ segir Birna. Hún segir meginregluna við val á lista Viðreisnar vera uppstillingu samkvæmt samþykktum flokksins en segir það skýrast betur á næstu dögum hvernig staðið verði að vali á lista flokksins.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði boðað landsfund á Grand hótel dagana 6. til 8. október næstkomandi þegar til stjórnarslitanna kom. Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG, á ekki von á að þeirri dagsetningu verði breytt í ljósi kosninganna. Björn Valur Gíslason, núverandi varaformaður VG, hefur tilkynnt um að hann sækist ekki eftir endurkjöri.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG.
Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG.

Spurð hvernig valið verði á lista VG segist Björg eiga von á að farið verði í uppstillingu þar sem lítill tími gefist til forvals.

Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir það vera haustfundar miðstjórnar flokksins að ákveða flokksþing framsóknarmanna og var því beint til fundarins að það yrði haldið í janúar á næsta ári en haustfundur var ráðgerður 17. til 18. nóvember næstkomandi.

„Þetta skýrist á allra næstu dögum. Það er komið nýtt tímaplan fyrir alla flokka og það þurfa allir að aðlaga flokksstarfið að væntanlegum tímamörkum,“ segir Einar Gunnar. Hann segir eftirfarandi leiðir færar við val á lista flokksins; prófkjör, bæði opið og fyrir félagsmenn, uppstilling, kjördæmisþing og póstkosning.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir engar umræður hafa hafist um það hvort flýta þurfi landsfundi flokksins sem stendur til að halda í Laugardalshöll helgina 3.-5. nóvember. „Við förum bara inn í vikuna og sjáum hvað gerist,“ segir Þórður. Heimildir mbl.is herma að mikill vilji standi til þess að fara í uppstillingu í flestum kjördæmum Sjálfstæðisflokksins. 

Frá aðalfundi Pírata í Valsheimilinu í lok ágúst.
Frá aðalfundi Pírata í Valsheimilinu í lok ágúst. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bæði Píratar og Björt framtíð hafa nýlega lokið við flokksfundi sína, aðalfund hjá Pírötum og ársþing hjá Bjartri framtíð. Ekki náðist í fulltrúa Bjartrar framtíðar við vinnslu fréttarinnar en Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, á von á því að flokksfundur verði haldinn fyrir kosningar þannig grasrót flokksins fái tækifæri til að koma saman og ráða að ráðum sínum.

„Við förum í prófkjör,“ segir Erla spurð út í val á lista Pírata. „Þannig hefur það alltaf verið og við komum ekki til með að breyta því,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert