Gæti ekki setið í stjórn með Viðreisn

Sigurður Ingi Jóhannsson á Bessastöðum í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson segir algjöran einhug hafa verið um það innan þingflokks Framsóknarflokksins að taka ekki sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn eftir að Björt framtíð klauf sig út úr stjórnarsamstarfinu seint á föstudagskvöldið. Hann segir eðlilegt að starfsstjórn fari með framkvæmdavaldið þar til mynduð verður ný ríkisstjórn að loknum kosningum.

„Við ræddum það í gær hvaða leiðir væru færastar og vildum gjarnan skoða það ef að það hefði verið möguleiki að mynda stjórn innan niðurstöðu síðustu kosninga. Ég tel að við þessar aðstæður sé eðlilegast að ganga til kosninga,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Sigurður Ingi kveðst bjartsýnn á gengi Framsóknarflokksins í væntanlegum kosningum.

Hugnast vel að kjósa 4. nóvember

„Við fórum yfir stöðuna og eins og ykkur er öllum kunnugt þá er stefnt að því að hafa kosningar, væntanlega í byrjun nóvember,“ sagði Sigurður Ingi um fund sinn með forseta. Honum hugnast ágætlega að kosningar fari fram þann 4. nóvember líkt og forsætisráðherra hefur lagt til.

„Ég held að annað hvort séu menn tilbúnir að fara nýjar leiðir sem ég held að hafi ekki reynst og þá er þetta jú eðli lýðræðisins, það er að ganga til kosninga,“ sagði Sigurður Ingi, spurður hvort hann hefði viljað lengri tíma til að meta hvort hægt væri að mynda stjórn miðað við núverandi samsetningu þingsins.

Einhugur innan þingflokksins

Aðspurður segir Sigurður Ingi góðan anda vera innan Framsóknarflokksins. „Við fórum yfir þetta á tveimur þingflokksfundum í gær og algjör samhugur um það að við vildum ekki fara inn í þá stjórn sem að hafði allt í einu opnast þarna einhver sæti í og við vildum gjarnan skoða hvort það væru til leiðir að búa til annað form á ríkisstjórn en ef ekki þá værum við tilbúin til kosningar og þá hvenær sem væri,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir það einnig eiga við um Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem var staddur annars staðar og var því ekki á þingflokksfundunum í gær en Sigurður Ingi kveðst hafa verið í sambandi við Sigmund vegna þessa. „Það er algjör einhugur hjá okkur Framsóknarmönnum um það að þetta sé niðurstaða sem að við sættum okkur við erum tilbúin að takast á við það.“

Viðreisn yrði að snúa frá stefnumálum

Spurður hvers vegna flokknum hugnaðist ekki að taka sæti, sem að sögn Sigurðar Inga bauðst Framsóknarflokknum í ríkisstjórn, svarar Sigurður Ingi: „Það kom fram í stjórnarmyndunarviðræðunum í desember og janúar að við myndum aldrei geta tekið sæti í slíkri ríkisstjórn með Viðreisn nema að Viðreisn myndi snúa algjörlega við nánast öllum sínum stefnumálum. Nú gerðu þeir það reyndar en ég er ekki viss um að þeir hefðu gert það ef við hefðum setið við borðið þannig að við sáum ekki neinn flöt á því.“

Til stóð að halda flokksþing Framsóknarflokksins í janúar en Sigurður Ingi segir að nú þurfi að fara yfir málið og það eigi eftir að koma í ljós hvort flokkurinn muni gera einhverjar ráðstafanir vegna væntanlegra kosninga í byrjun nóvember. „Við förum auðvitað bara yfir það í okkar ranni, í okkar kerfum og munum koma tvíefld og öflug inn í kosningarnar 4. nóvember og hlökkum til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert