Kallaði ekki eftir nýrri stjórnarskrá

Guðni Th.Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th.Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kallaði ekki eftir því að samþykkt væri ný stjórnarskrá við næstu þingkosningar þegar hann setti Alþingi á dögunum heldur að gerðar væru ákveðnar breytingar á núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins.

Þingflokkur Pírata hvatti til þess í gær að frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem upphaflega var samið af stjórnlagaráði og lagt fram á Alþingi fyrir þingkosningarnar 2013, yrði samþykkt fyrir næstu þingkosningar sem gætu farið fram í nóvember. Í yfirlýsingu þingflokksins segir: „Þingflokkur Pírata skorar því á alla aðra flokka á Alþingi að verða við þessu ákalli, sem og ákalli forseta Íslands við þingsetningu, og samþykkja nýja stjórnarskrá áður en þing verður rofið og gengið til kosninga sem þarf að verða eins fljótt og auðið er.“

Þegar þingið var sett síðasta þriðjudag áttu fáir ef einhverjir von á því að rúmum tveimur sólarhringum síðar félli ríkisstjórnin og nýjar þingkosningar yrðu að öllum líkindum á næsta leyti. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur talað um að hugsanlega verði kosið 4. nóvember. Guðni rifjaði í ávarpi sínu við þingsetninguna upp sögu stjórnarskrárbreytinga og sögu stjórnarskrárinnar og lauk því með eftirfarandi orðum:

„Sumir í þessum sal vilja algerlega nýja stjórnarskrá, aðrir litlar sem engar breytingar, rétt eins og skoðanir almennings eru skiptar. Árið 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Tveimur árum síðar fengum við Íslendingar nýja stjórnarskrá, í stað þeirrar sem konungur afhenti þjóðinni árið 1874. Við hæfi væri að minnast þessara miklu tímamóta næstu missera, aldarafmælis fullveldis og stjórnarskrár, með því að vinna af einurð að breytingum á grunnsáttmála þjóðarinnar, breytingum sem vitna um sameiginlega sýn sem flestra á umhverfi og auðlindir, samfélag og stjórnskipun, ábyrgð og vald.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert