„Maður er hreinlega enn í æfingu“

Flokkur fólksins er á fullri ferð að sögn Ingu Sæland, …
Flokkur fólksins er á fullri ferð að sögn Ingu Sæland, formanns flokksins. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tíðindi síðustu daga koma flatt og bratt upp. „Fyrst þetta var ekki sprungið í fyrradag þá fannst mér ekkert líklegt að þetta mál yrði einhver vendipunktur. Það er erfitt leggja mat á þetta frá hliðarlínunni en við höfum séð að frá því að Björt Framtíð ákvað að taka þátt í þessu samstarfi hafa þau átt við ramman reit að draga og hafa verið í erfiðri stöðu samkvæmt könnunum, en ég hef ekki mikið meira um þetta mál að segja,“ segir Inga sem var á leið á skrifstofu flokksins þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni. „Það er nóg að gera, eðli málsins samkvæmt.“

Tilbúin í kosningarbaráttu

Kosningarnar leggjast vel í Ingu sem segir flokkinn standa betur að vígi núna heldur en fyrir síðustu kosningar. „Við finnum fyrir því að það er virkilega verið að kalla eftir breytingum og við viljum meira réttlæti. Ég hef fundið fyrir því að það er verið að leggja mikið traust á okkur og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa undir því trausti. Það verður síðan að koma í ljós í fyllingu tímans hvernig okkur tekst til í kosningunum en við erum tilbúin í hvaða sem sem er og kosningarbaráttuna.“

Flokkur fólksins fékk um 3,5% atkvæða á landsvísu í síðustu kosningum og fær þar af leiðandi fjárframlög frá ríkinu. „Við fengum rúmar tíu milljónir í febrúar og hefðum átt að fá sömu fjárhæð aftur í febrúar á næsta ári. Við eigum sjóð og höfum sparað framlögin fyrir kosningarbaráttuna. Hjá okkur er fólk að vinna af hugsjón og launalaus þannig að þrátt fyrir að vinnudagarnir séu langir þá hefur flokkurinn ekki tapað peningum. Við eigum aura og komum vonandi til með að fá frekari stuðning til að fylgja þessu eftir. Við stöndum í raun mun betur að vígi núna heldur en við gerðum í síðustu kosningum. Fyrir utan það að vera fjárhagslega sterkari þá erum við reynslunni ríkari og finnum fyrir mun meiri stuðning. Fólki okkar veit af og þekki Flokk fólksins en í fyrra var baráttan mjög stutt og knöpp og við höfðum í raun ekkert bolmagn til að auglýsa okkur. Það má segja að fyrsta útsendingin í kosningarsjónvarpi RÚV hafi verið fyrsta auglýsingin okkar í fyrra. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert