Kristján H. Johannessen
„Þessi ríkisstjórn gaf upp öndina einfaldlega vegna þess að límið sem hélt henni saman var mjög veikt frá upphafi – þrír flokkar, tveir þeirra alveg nýir, óreynt fólk, eins manns meirihluti og erfið mál fram undan. Þeir voru því fáir sem veðjuðu á að þessi ríkisstjórn myndi endast út allt kjörtímabilið.“
Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag. Vísar hún í máli sínu til ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem óvænt féll seint í fyrrakvöld eftir tilkynningu frá stjórn Bjartrar framtíðar, en þar var „alvarlegur trúnaðarbrestur“ innan ríkisstjórnarinnar sagður ástæða slitanna.
Stefanía segir það hafa verið dýrt á sínum tíma fyrir Bjarta framtíð að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. „Þeir misstu að mörgu leyti tenginguna við þá sem líta á sig sem vinstrimenn,“ segir hún og bætir við að flokkurinn, sem að undanförnu hefur mælst lágt í skoðanakönnunum, gæti grætt á ákvörðun sinni um að slíta samstarfi. „Þeir gætu þess vegna rokið upp núna,“ segir hún.