Sér fram á áframhaldandi stjórnarkreppu

Birgitta Jónsdóttir á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni á Bessastöðum …
Birgitta Jónsdóttir á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef verið að heyra að einhverjir flokkar séu að tala saman en við erum ekki aðilar að því,“ sagði Birgitta Jónsdóttir pírati er hún gekk út af fundi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands á Bessastöðum í dag.

Birgitta hefur gefið það út að hún muni ekki gefa kost á sér til Alþingis í næstu kosningum, sem að útlit er fyrir að verði þann 4. nóvember næstkomandi.

„Mér finnst það bara fín dagsetning, ég átta mig á því að stjórnsýslan þarf bara smá rými til undirbúa sig. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að ég sé fram á bara áframhaldandi stjórnmálakreppu og ég vona að það verði ekki einhver hefð á Íslandi að það séu kosningar á hverju ári,“ sagði Birgitta. „Það þýðir það að mjög mikið af málum falla á milli og það eru bara margir hópar í samfélaginu sem að þurfa á því að halda að við gleymum því ekki.“

Komi í ljós hvað verður

Hún segir fundinn með forseta hafa verið góðan. „Það er svona verið að fara yfir mögulegan kosningadag og þingrof og annað og svo bara kemur í ljós hvort að eitthvað fólk sé að tala saman eða ekki og hvort að við séum að fara í kosningar,“ sagði Birgitta.

„Það þarf að klára einhverja hluti og auðvitað verður þingið að koma saman, ég geri ekki ráð fyrir öðru,“ sagði Birgitta, spurð hvort útlit sé fyrir að þing muni vera starfandi í aðdraganda kosninga. „Við sjáum bara til hvað setur, það kemur allt í ljós geri ég ráð fyrir á mánudaginn hvernig framhaldið verður.

Heldur áfram að berjast fyrir sínum hugsjónum

„Maður hættir ekki í stjórnmálum en ég er sem sagt að hætta á Alþingi,“ sagði Birgitta er hún var spurð hvað taki við hjá henni, nú þegar útlit er fyrir að hún hætti á þingi. Hún kveðst áfram ætla að vera virk í stjórnmálum þótt hún taki ekki sæti á Alþingi, hún hyggst taka þátt í mótmælum, alþjóðastarfi og vill áfram berjast fyrir auknu upplýsinga- og tjáningarfrelsi og fyrir nýrri stjórnarskrá.

„Ég bara hlakka til að vera áfram aktívisti og berjast fyrir ákveðnum réttindum í þessu samfélagi,“ segir Birgitta.

Bjartsýn á framtíð Pírata

Birgitta, sem segja má að hafi verið kapteinninn í brúnni frá því að Píratar buðu fyrst fram til Alþingis, kveðst vera bjartsýn á framtíð flokksins á þingi þegar hún hættir.

„Þetta er góður hópur af fólki og ég er búin að vera að sjá þessa þingmenn okkar nýju bara vaxa mjög og ég tók þátt í að búa til þennan flata strúktúr í Pírötum til þess að valdefla og valddreifa,“ segir Birgitta.

„Þó svo að ég hafi verið í brúnni þá er rosalega mikið af hæfileikaríku fólki og við erum búin að vera mjög mörg oft í brúnni og mörgum hefur fundist það skringilegt þegar við erum kannski að mæta þrjú á fundi þar sem að venjulega er einn. Þannig að ég bara hef fulla trú á því að það mannist vel á listum hjá Pírötum núna eins og síðast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka