Í vikunni voru haldnir á Suðurlandi fyrstu fundirnir með fulltrúum sveitarfélaga og íbúum á hverjum stað vegna nýrra almannavarnaáætlana fyrir landshlutann.
„Hugtökin eru skilgreind vítt og talsvert fleiri þættir en náttúruvá eru teknir inn í þessa vinnu,“ segir Víðir Reynisson í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, en hann stýrir þessu verkefni á vegum lögreglunnar og sveitarfélaganna á Suðurlandi.
„Jarðskjálftar, eldgos, flóð og stórbrunar eru vissulega ofarlega á blaði og fyrsta hjálp þegar slíkir atburðir gerast. Nú horfum við til mun fleiri þátta, svo sem aðgerða ef veitu- og fjarskiptakerfi bresta, velferðarmálin koma inn í þetta og hvernig sveitarfélög geti unnið sig sem fyrst út úr áföllum. Sé ekki markvisst að málum staðið strax í byrjun geta eftirköstin varað í mörg ár.“