„Þessu ríkisstjórnarsamstarfi er lokið“

Benedikt Jóhannesson stígur inn í ráðherrabílinn að loknum fundi með …
Benedikt Jóhannesson stígur inn í ráðherrabílinn að loknum fundi með forseta Íslands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var mjög hissa á því að þetta gerðist svona hjá Bjartri framtíð. Ég hefði gjarnan viljað að ég hefði vitað að þau væru að fara á fund þar að kæmi til greina að slíta stjórnarsamstarfinu. Ég hefði talið að það væri eðlilegt fyrsta skref ef að menn eru óánægðir með samstarfsráðherra sína að þeir fái að gera grein fyrir máli sínu.“

Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, að loknum fundi sínum með forseta Íslands á Bessastöðum í dag. Benedikt kveðst þó virða ákvörðun Bjartrar framtíðar, Viðreisn sé reiðubúin til kosninga og lýst formanninum ekki illa á að kosningar fari fram þann 4. nóvember.

„Í þessu máli hefur vissulega orðið trúnaðarbrestur milli stjórnmálamanna og þjóðarinnar. Þetta er hörmulegt mál, mjög alvarlegir glæpir sem þarna eru og við verðum að fjalla um það af virðingu við fórnarlömbin sem þarna eru, við verðum að hætta þessari leyndarhyggju og það er meginatriði sem er í þessu,“ sagði Benedikt ennfremur.

Gefur svar um starfsstjórn eftir helgi

Þá sagði Benedikt að eftir helgi muni hann gefa Guðna Th. Jóhannessyni endanlegt svar um hvort flokkurinn fallist á að taka þátt í starfsstjórn fram að kosningum.

„Við munum taka þátt í henni núna næstu dagana, að minnsta kosti um helgina, við þurfum að fara aðeins yfir þetta. það þarf að vega og meta þetta en nú verðum við að átta okkur á því að þessi starfsstjórn er allt öðruvísi heldur en venjuleg ríkisstjórn.

Þessu ríkisstjórnarsamstarfi er lokið þannig að starfsstjórn þá felst það bara í því að það er verið að manna ráðuneytin, einhverjir þurfa að sjá um daglegan rekstur ríkisins þannig að það er þessi eðlis munur á,“ sagði Benedikt en fram hefur komið að Viðreisn hugnist ekki að starfa áfram í ríkisstjórn með þau Bjarna Benediktsson og Sigríði Á Andersen innanborðs.

„Þessu ríkisstjórnarsamstarfi er lokið, þessu meirihlutasamstarfi er lokið, við erum ekki lengur að tala um neitt samstarf af því tagi. Það verða væntanlega ekki haldnir einu sinni ríkisstjórnarfundir á þessu tímabili en ég sagði forsetanum að ég myndi gefa honum endanlegt svar um þetta eftir helgina,“ sagði Benedikt.

Kosningabaráttan hafin?

Þá vék Benedikt máli sínu meðal annars að þeim orðum er Bjarni Benediksson lét falla í yfirlýsingu sinni í Valhöll í gær um mikilvægi þess að sterkir og rótgrónir flokkar stýri landinu.

„Forsætisráðherra skilgreinir fyrir okkur að annars vegar sér hann kerfisflokkana, hann talar um að það verði að vera gamlir og stöndugir flokkar af því að þessir nýju flokkar, þeir séu ekki stjórntækir,“ sagði Benedikt. Þannig hafi forsætisráðherra gefið til kynna að kjósendur þurfi að velja á milli gamalla rótgróinna flokka eða nýrra og óreyndra.

„Hvernig komast kerfisbreytingar á? Þær komast ekki á nema að það sé mikið fylgi þessara nýju flokka og þar er Viðreisn auðvitað leiðandi,“ sagði Benedikt sem vék máli sínu næst að þeim störfum og árangri sem Viðreisn hafi mátt fagna með þátttöku í ríkisstjórn. Óhætt er að segja að kosningabarátta sé hafin.  

Bauð ekki Framsókn að borðinu

Spurður hvort komið hafi til greina af hálfu Viðreisnar að reyna að mynda annars konar ríkisstjórn segir Benedikt svo vera. „Ég er búinn að eiga í viðræðum við marga einmitt með þetta og vita allir hverjir eru formenn flokkanna og við erum bara búin að ræða þetta opið og heiðarlega,“ sagði Benedikt. Raunin verður þó sú að boðað verður til nýrra kosninga.

Hann kveðst hins vegar ekki hafa boðið Framsóknarflokknum inn í stjórnarsamstarf með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu. „Nei, ekki ég að minnsta kosti en ég hef rætt við Sigurð Inga, ég ræði við alla,“ sagði Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert