Viska mömmu víða í mínum fræðum

Guðni Gunnarsson.
Guðni Gunnarsson. Eggert Jóhannesson

„Hann er raun­veru­leg­ur gúrú, ekki feik,“ seg­ir koll­egi minn við mig þegar ég er á leiðinni út úr dyr­un­um að hitta Guðna Gunn­ars­son, mann­inn sem færði Íslend­ing­um hið vin­sæla rope yoga en einnig nýja and­lega nálg­un á heil­rækt þar sem hann hef­ur kennt fjölda Íslend­inga að beina at­hygli sinni og orku í nýj­an far­veg. Yf­ir­skrift þeirr­ar speki er „mátt­ur at­hygl­inn­ar“.

Þessi orð um að Guðni sé raun­veru­leg­ur gúrú eru ekki bara orð koll­eg­ans held­ur hafa skjól­stæðing­ar hans verið for­stjór­ar stórra fyr­ir­tækja og alþjóðleg­ar stór­stjörn­ur sem hafa getað valið úr hverri þeirri þjálf­un sem hef­ur verið í boði en þeir valið Guðna. Má þar nefna leik­kon­una Kim Basin­ger og Brandon Routh sem lék meðal ann­ars Súperm­an en hann var skjól­stæðing­ur Guðna meðan á vinnu við þá mynd stóð.

Ég segi Guðna að hann hafi þetta orð á sér og hann fer að hlæja og seg­ir að starf hans snú­ist um að minna fólk á vitn­eskju sem það búi sjálft yfir, innst inni.

„Ég næ til fólks sem er til­búið að láta ná til sín. Ég dæmi eng­an en hef mikla reynslu og sé þján­ing­una sem fólk hef­ur búið sér til. Það er ekki til þján­ing nema heima­til­bú­in og snýst um viðhorf. Fólk á nefni­lega val um tvö viðhorf; að líta á eitt­hvað sem vanda­mál eða tæki­færi, bless­un eða böl. Við búum á Íslandi sem er í raun og veru besta land í heimi, það er hvergi nokk­urs staðar svona vel­sæld, friður, rými, loft og vatn og fullt af mögu­leik­um en við för­um á mis við það því við erum föst í því að til­ver­an eða aðrar mann­eskj­ur séu að gera okk­ur eitt­hvað.

Flest­ar mann­eskj­ur hafa þá á hreinu hvað þær vilja ekki en vita í raun mjög lítið um hvað þær vilja. Þær vona og lang­ar og ætla en vilja ekki. Vilji er nefni­lega verknaður og ef við veit­um því at­hygli sem við vilj­um ekki þá vex það og dafn­ar. Ég hef aldrei hitt hjarta sem þekk­ir ekki þenn­an veru­leika sem ég er að tala um. Svo hef ég hitt fullt af höfðum sem vilja ekki heyra þetta því ótt­inn yf­ir­gnæf­ir hjarta þeirra.“

Í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins sem kem­ur út um helg­ina er kafað ofan í fræði Guðna og les­end­um leyft les­end­um að fá forsmekk af því sem hef­ur heillað svo marga en einnig er fjallað um per­sónu hans og for­sögu.

Varð veik af fyrstu sop­un­um

 „Oft er grín­ast með að Kefl­vík­ing­ar séu djarf­ir vill­ing­ar á ann­arri bylgju­lengd, en við ól­umst líka upp við önn­ur skil­yrði. Við höfðum sér­stak­an aðgang að tónlist og bjór var eðli­leg­ur hlut­ur. Bróðurpart­ur þess smygls sem barst til lands­ins kom til Kefla­vík­ur með tog­ur­um. Þetta var því svo­lítið lúx­us­sjó­ræn­ingjaþorp og ekk­ert sem þú gast ekki fengið og allt var mögu­legt. Á sama tíma ólst ég upp við mikla neyslu. Pabbi var sjó­maður, vann mikið og drakk illa og systkini mömmu voru líka öll í neyslu. Mín fyrstu ár sem barn gengu út á að hirða systkini henn­ar upp af göt­unni, lappa upp á þau og horfa svo á þau detta aft­ur í það.

Sum­ir eru veik­ari fyr­ir en aðrir og mamma, sem var ofsa­lega góð mann­eskja, byrjaði að drekka seint. Það hafði hún aldrei ætlað að gera en hún varð strax hrein­lega veik af fyrstu sop­un­um. Á end­an­um varð hún sér að bana. Ég hafði þá horft á þessa ynd­is­legu konu tær­ast upp. Hún var mik­ill meist­ari, kenndi mér allt um ást og heiðarleika og visku mömmu má finna víða í mín­um fræðum.“ Faðir Guðna setti síðar tapp­ann í flösk­una og gerðist öfl­ug­ur liðsmaður SÁÁ síðustu 30 ár ævi sinn­ar.

„Það er oft talað um að hlut­ir gangi í erfðir en ég held því fram að slíkt sé ekki lík­am­legt held­ur hug­lægt, við erf­um sög­urn­ar. Ég hef ekki reynt að ein­hver sé gene­tískt lík­legri en ann­ar til að verða fylli­bytta. En mamma var bara búin á því. Búin að bjarga fólki í kring­um sig á steytt­um hnefa og svo þegar hún opnaði flösk­una gleypti flask­an hana.“

Vissi snemma að hann bæri ábyrgð

Hvernig vannstu úr þess­ari til­veru?

„Maður lokaði sig af til­finn­inga­lega og varð vél­rænn að ein­hverju leyti. Áræðinn, kald­ur töffari. Þegar ég var 16 ára áttaði ég mig á að ég var orðinn hættu­leg­ur sjálf­um mér. Ég var það ástríðufull­ur og áræðinn að ég áttaði mig á að ef ég gripi ekki í hnakka­drambið á mér biði mín ekk­ert annað en volæði. Ég fór að vinna í því að skil­greina til­vist mína og 18 ára gam­all ákvað ég að drekka ekki áfengi fyrr en ég hefði þroska til, fann að ég var að hella upp á ótta. Ég var svo kom­inn út í lífið snemma og far­inn að bjarga mér, átti von á barni 18 ára og hóf að byggja tveggja hæða hús 19 ára.“

Þú ákveður að þú vilj­ir ekki erfa sög­urn­ar?

„Þegar ég legg af stað út í lífið ligg­ur minn metnaður í því að verða ekki eins og for­eldr­ar mín­ir. Sem gerði það að verk­um að ég hlaut að verða þannig því með þetta í hug­an­um, að ætla að sanna að ég væri betri en þau, er sjálfs­mynd mín brot­in. Þú ert ekki hugs­an­ir þínar en þú verður það sem þú hugs­ar um. Þegar þú hugs­ar um það sem þú vilt ekki þá viltu það. Þetta hljóm­ar svo­lítið af­stætt en at­hygli er ljós eða líf og þegar þú veit­ir ein­hverju at­hygli ertu að gefa því líf, ég var að gefa þess­ari ímynd um það sem ég ætlaði ekki að verða líf. Það er það sem mátt­ur at­hygl­inn­ar geng­ur út á. Þú lær­ir að skilja að þú mátt verja orku þinni eins og þú vilt; þú get­ur varið henni í að búa til fal­legt musteri og ynd­is­legt líf en get­ur líka eytt henni í að búa til mjög bág­borið erfitt líf.“

Ítar­legt viðtal birt­ist í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert