Aftur tími óstöðugleikans

Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli …
Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli barnaníðings sem fékk uppreist æru. mbl.is/Eggert

Á síðustu átta árum hafa þrjár rík­is­stjórn­ir sprungið vegna ágrein­ings sam­starfs­flokka áður en kjör­tíma­bil­inu er lokið. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur átt aðild að þeim öll­um. Þar á und­an urðu síðast stjórn­arslit vegna inn­byrðis ágrein­ings haustið 1988. Á tí­unda ára­tugn­um og fyrstu ára­tug­um þes­ar­ar ald­ar ríkti aft­ur á móti stöðug­leiki í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Sama er að segja um viðreisn­ar­ár­in 1959 til 1971, en óstöðug­leiki ein­kenndi átt­unda og ní­unda ára­tug­inn með und­an­tekn­ing­um þó og öll árin frá lýðveld­is­stofn­un fram að mynd­un viðreisn­ar­stjórn­ar­inn­ar.

Þrjár stjórn­ir sprungið

Stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar, sem tók við 11. janú­ar þetta ár, hafði ekki setið nema í 247 daga þegar hún missti meiri­hlutastuðning á þingi í fyrra­kvöld. Einn stjórn­ar­flokk­anna, Björt framtíð, sleit sam­starf­inu vegna trúnaðarbrests um meðferð á máli barn­aníðings sem fékk upp­reist æru.

Stjórn sjálf­stæðismanna og fram­sókn­ar­manna und­ir for­sæti Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar, mynduð 23. maí 2013, sat í tæp þrjú ár. Hún hrökklaðist frá völd­um í kjöl­far upp­náms í þjóðfé­lag­inu og ágrein­ings stjórn­ar­flokk­anna eft­ir upp­ljóstrun um leyni­leg­an af­l­ands­reikn­ing sem for­sæt­is­ráðherra var tengd­ur.

Stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar und­ir for­sæti Geirs H. Haar­de, mynduð 24. maí 2007, sat í eitt ár og átta mánuði. Upp úr sam­starf­inu slitnaði vegna sam­starfs­örðug­leika í kjöl­far banka­hruns­ins haustið 2008. Sam­fylk­ing­in krafðist þess að fá stjórn­ar­for­yst­una ef sam­starfið ætti að halda áfram, en á það gátu sjálf­stæðis­menn ekki fall­ist.

Stöðug­leiki viðreisn­ar- og Davíðsstjórna

Á viðreisn­ar­ár­un­um, tíma Ólafs Thors og Bjarna Bene­dikts­son­ar eldri, og síðan á tí­unda ára­tugn­um og fyrstu árum þess­ar­ar ald­ar, tíma Davíðs Odds­son­ar, skapaðist sú ímynd að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn væri klett­ur­inn í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Með þátt­töku hans í lands­stjórn­inni væri stjórn­ar­festa tryggð. Óhætt mun að segja að þetta eigi ekki leng­ur við eins og Ei­rík­ur Berg­mann stjórn­mála­fræðing­ur benti á í sam­tali við mbl.is í gær.

Rík­is­stjórn­ir sem setið hafa á lýðveld­is­tím­an­um frá 1944 hafa verið mis­jafn­lega lang­líf­ar. Fram að viðreisn­ar­stjórn­inni, sem mynduð var í nóv­em­ber 1959, hafði eng­in rík­is­stjórn náð að sitja heilt kjör­tíma­bil Alþing­is. Viðreisn­ar­stjórn­in sat í þrjú kjör­tíma­bil, í tólf ár sam­fleytt. Eft­ir það varð aft­ur los á út­haldi rík­is­stjórna fram til 1991, ef stjórn­ir Geirs Hall­gríms­son­ar frá 1974 til 1978 og Stein­gríms Her­manns­son­ar frá 1983 til 1987 eru und­an­skild­ar. Þá sat rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur í heilt kjör­tíma­bil frá 2009 til 2013. Eft­ir það má segja að lausung­in hafi á ný hafið inn­reið sína í ís­lensk stjórn­mál.

Geir H. Haarde skýrir fjölmiðlum frá stjórnarslitum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar …
Geir H. Haar­de skýr­ir fjöl­miðlum frá stjórn­arslit­um Sjálf­stæðis­flokks­ins og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Alþing­is­hús­inu 25. janú­ar 2009. Sam­fylk­ing­in krafðist stjórn­ar­for­ystu ef sam­starfið ætti að halda áfram. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

Óstöðug­leiki á átt­unda og ní­unda ára­tugn­um

Fyr­ir tæp­um 30 árum, haustið 1988, sprakk þriggja flokka stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins, Alþýðuflokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins und­ir for­sæti Þor­steins Páls­son­ar. Hún hafði aðeins setið í rúmt ár. Stjórn­ar­flokk­ana greindi á um skatt­kerf­is­breyt­ing­ar þar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn var með til­lög­ur sem sam­starfs­flokk­arn­ir gátu ekki fall­ist á. Rúm­um ára­tug fyrr, í októ­ber 1979, ákváðu alþýðuflokks­menn að draga sig út úr sam­steypu­stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um og Alþýðubanda­lag­inu und­ir for­sæti Ólafs Jó­hann­es­son­ar. Ástæðan var óánægja með sam­stöðuleysi inn­an stjórn­ar­inn­ar um úr­lausn efna­hags­mála. Stjórn­in hafði aðeins setið í rúma 13 mánuði.

Efnt var til alþing­is­kosn­inga í kjöl­far stjórn­arslit­anna 2009 og 2016. Einnig árið 1979. Það var hins veg­ar ekki gert 1988 held­ur tóku þá stjórn­ar­and­stöðuflokk­ar sæti í rík­is­stjórn í stað Sjálf­stæðis­flokks­ins. Hvað nú verður er enn of snemmt um að spá.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert