Sigríður Andersen dómsmálaráðherra neitar því ekki að hafa rofið trúnað við Benedikt Sveinsson, föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, þegar hún greindi þeim síðarnefnda frá því að faðir hans hefði skrifað undir meðmælabréf hjá einstaklingi sem var veitt uppreist æra. „Hann verður þá að eiga það við mig,“ sagði hún í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Benedikt skrifaði undir meðmælabréf sem Hjalti Sigurjón Hauksson, sem dæmdur var árið 2004 í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota stjúpdóttur sína, skilaði inn með umsókn sinni um uppreist æru á síðasta ári.
Sigríður var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi, ásamt Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Hann spurði hvers vegna Bjarni hefði þurft að fá þessar upplýsingar, en Sigríður sagði upplýsingagjöfina ekki að hafa snúist um það. Hún hefði sjálf þurft að fá upplýsingar frá Bjarna, bæði um það hvort hann hefði vitað um meðmælin og hvort hann hefði haft einhverja aðkomu að máli Roberts Downey, sem fékk uppreist æru á sama tíma og Hjalti. Hún sagði misvísandi fréttir hafa verið af því að Bjarni hefði skrifað undir bréfið sem veitti uppreist æru sem starfandi innanríkisráðherra, enda hafi hún verið mikið frá vegna veikinda. Í ljós kom hins vegar að Ólöf Nordal skrifað undir bréfið.
Hún sagðist hafa tekið allar sínar ákvarðanir í samræmi við lög og reglur og það lægi fyrir að ef dómsmálaráðuneytið hefði birt öll gögn í máli Roberts Downey þegar óskað var eftir þeim í sumar, þá hefðu lög verið brotin. Enda þurfti að fjarlægja ýmsar persónuupplýsingar úr gögnunum áður en þau voru birt, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Hún þvertók fyrir að um leyndarhyggju hefði verið að ræða í þessu máli, enda hefði þá verið hægt, lögum samkvæmt, að skjóta úrskurði nefndarinnar til dómstóla. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Sigríður sagði jafnframt að hún hefði spurst fyrir um það í ráðuneytinu hvernig bréfin væru staðfest og hvort gengið væri úr skugga að þau væru raunverulega frá þeim sem þau undirrituðu. Svörin voru á þá leið bréfin væru einfaldlega tekin gild án nokkurrar athugunar.