„Meðmælabréfið til handa Hjalta Sigurjóni Haukssyni hafði ekkert með umsókn um uppreist æru að gera heldur var um að ræða meðmæli í vinnu þar sem staðfest var að Hjalti hefði starfað hjá okkur og ég gæti mælt með honum sem bílstjóra.“
Þetta segir í yfirlýsingu sem Haraldur Þór Teitsson hefur sent til fjölmiðla en hann var einn þriggja sem undirrituðu meðmælabréf sem fylgdu umsókn Hjalta, sem dæmdur var á sínum tíma fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni um margra ára skeið, um uppreist æru. Haraldur segist þannig ekki hafa veitt Hjalta slík meðmæli heldur aðeins almenn meðmæli í maí 2016 vegna umsóknar um vinnu. Hjalti hafi ekki óskað eftir öðru.
„Jafnframt vildi ég að það kæmi fram, gagnvart öðrum fyrirtækjum sem Hjalti kynni að leita starfa hjá, að þau gætu átt von á erfiðleikum vegna forsögu hans. Eins og fram hefur komið í fréttum var Hjalta sagt upp störfum hjá okkur eftir að í ljós kom að hann var dæmdur kynferðisbrotamaður. Það að þessi bréf voru notuð sem meðmæli um uppreist æru Hjalta var gert án minnar vitundar og samþykkis,“ segir Haraldur enn fremur.
Haraldur segir að honum hafi aldrei verið tjáð að meðmælin yrðu notuð í tengslum við umsókn um uppreist æru enda hefðu þau þá aldrei verið veitt. „Það eru forkastanleg vinnubrögð ráðuneytis að koma með þessum hætti aftan að grandalausu fólki. Það viðurkennist að um dómgreindarbrest var að ræða af minni hálfu að veita þessi meðmæli, þótt þau hafi aðeins verið ætluð öðrum vinnuveitendum.“
Segist Haraldur biðjast afsökunar á þeim dómgreindarbresti af auðmýkt. „Sárast tekur það mig að þetta ömurlega mál hefur ýft upp djúp sár brotaþola Hjalta. Ég er miður mín vegna þess.“
Sveinn Eyjólfur Matthíasson, sem einnig ritaði undir meðmælabréf sem fylgdi umsókn Hjalta um uppreist æru, hefur einnig sagt að hann hefði verið í þeirri trú að hann væri að veita meðmæli vegna starfsumsóknar.