Takmarkanir gildi ekki gagnvart ráðherrum

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, bendir á það í nýrri færslu á heimasíðu sinni að öll skjöl sem fari fyrir forseta Íslands til undirritunar, þar á meðal umsóknir um uppreist æru, séu afgreidd á ríkisstjórnarfundi. Þannig sé upplýsingum um uppreist æru miðlað til allra ráðherra.

Að hans mati gilda þær takmarkanir, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál setti sem skilyrði fyrir birtingu gagna um uppreist æru, ekki gagnvart ráðherrum.

Hafi ráðherrar áhuga á að kynna sér einstaka þætti málsins geti þeir óskað eftir öllum þeim skjölum sem þeir kjósa, þar á meðal meðmælabréfum umsækjenda. Þannig hafi allir ráðherrar jafnan aðgang að gögnunum.

„Mín afstaða hefur verið að ekki eigi að hvíla nein leynd yfir því hverjir votta fyrir réttmæti þess að orðið sé við óskum umsækjenda. Hefði það gerst í minni ráðherratíð að einhver ráðherra hefði beðið um að fá að sjá undirgögn að baki tillögu til forseta Íslands um uppreist æru hefði afgreiðslu máls í ríkisstjórn verið frestað,“ skrifar Björn meðal annars.

Þá bendir hann á að trúnaður ríki um það sem gerist á ríkisstjórnarfundum. Það sé hins vegar löglegt að segja frá dagskrármálum þótt trúnaður ríki út á við um gögn sem búi að baki einstaka málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert