Sveinn Eyjólfur Matthíasson, einn þeirra sem skrifaði undir meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, sem árið 2004 var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota stjúpdóttur sína, kannast ekki við að hafa skrifað undir meðmælabréf í þeirri mynd sem það er í gögnum frá dómsmálaráðuneytinu. Þetta kemur fram á fréttavef Vísis. Ráðuneytið afhenti mbl.is gögn í máli Hjalta í gær og þriggja annarra sem fengu uppreist æru árið 2016.
Í gögnunum er að finna þrjú meðmælabréf sem Hjalti skilaði inn með umsókn sinni um uppreist æru í júní á síðasta ári, þar á meðal bréf frá Sveini sem var yfirmaður hans hjá Kynnisferðum.
Vísir hefur það eftir Sveini að hann gangist við því að hafa skrifað undir bréf fyrir Hjalta, en það hafi verið á þeim forsendum að hann hafi ætlaði að sækja um vinnu hjá olíudreifingarfyrirtækinu.
Sveinn gengst við því að hafa skrifað undir bréf fyrir Hjalta Sigurjón. Það hafi þó verið á þeim forsendum að Hjalti ætlaði að sækja um vinnu við akstur hjá olíudreifingarfyrirtæki. Á blaðinu sem hann skrifaði undir hafi verið að finna stuttan texta sem aðeins sneri að hæfni Hjalta til að aka bíl. Ekkert um hann sem persónu.
Í bréfi Sveins í gögnunum frá dómsmálaráðuneytinu segir:
„Ég get af heilum hug staðfest að …. er mjög samviskusamur, vandvirkur og góður bílstjóri. Hann er í hópi bestu fagmanna á sínu sérsviði og væri óskandi að sem flestir gætu tekið hann sér til fyrirmyndar. Honum er að auki umhugað um heill og farsæld vinnuveitenda sinna.
Sem manneskja er hann einstaklega ljúflyndur, þægilegur og umgengnisgóður í hvívetna. Hann hefur líka jákvætt hugarfar og að sama skapi glaðværð sem smitar út frá sér og skapar gott og hlýlegt andrúmsloft.“
Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, er einn þeirra sem veitti Hjalta meðmæli sín en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir helgi sagði hann Hjalta hafa komið til sín með bréf tilbúið til undirritunar.
„Það sem átti hér að vera lítið góðverk við dæmdan mann hefur snúist upp í framhald harmleiks brotaþola. Á því biðst ég enn og aftur afsökunar,“ stóð meðal annars í yfirlýsinu Benedikts.
Það liggur því fyrir að Hjalti fór með bréf tilbúin til undirritunar til tveggja þeirra sem veittu honum meðmæli, og í öðru tilfellinu virðist viðkomandi ekki hafa verið meðvitaður um hvað hann var að skrifa upp á.
Þriðja meðmælabréfið í gögnum í máli Hjalta er frá Haraldi Teitssyni, framkvæmdastjóra Teits Jónassonar ehf. Tvær útgáfur af bréfinu eru í gögnunum. Í öðru þeirra kemur aðeins fram að Hjalti hafi verið fær bílstjóri og vel liðinn af farþegum, og að hann hafi skilað inn sakavottorði.
Í hinu bréfinu er líka tekið fram að fyrirtækið hafi ekki séð sér fært að hafa Hjalta áfram í vinnu eftir að hótanir fóru að berast frá hópnum Stöndum saman, sem heldur úti vefsíðu með upplýsingum um dæmda barnaníðinga.