„Ráðgjafaráð Viðreisnar telur að ráðherrum flokksins sé rétt og skylt að verða við tilmælum forseta Íslands um að sitja áfram í ráðuneytum sínum, enda er þar byggt á langri stjórnskipulegri hefð á Vesturlöndum.“
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar sem yfir 40 manns sóttu og lauk síðdegis en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskaði eftir því í gær að núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sæti áfram sem starfsstjórn fram að kosningum.
„Jafnframt ítrekar ráðið að nauðsynlegt sé að embættisfærsla ráðherra í málum sem leiddu til stjórnarslitanna verði rannsökuð og að niðurstaða liggi fyrir áður en gengið verður til kosninga,“ segir enn fremur í ályktuninni.
Ráðgjafaráð Viðreisnar hafði áður lýst því yfir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra yrðu að víkja úr ríkisstjórninni á meðan rannsókn á embættisfærslum þeirra færi fram.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, benti á það í dag að öll skjöl sem fari fyrir forseta Íslands til undirritunar, þar á meðal umsóknir um uppreist æru, væru afgreidd á ríkisstjórnarfundum. Takmarkanir vegna upplýsingalaga giltu ekki í þeim efnum.
Ef ráðherrar hefðu áhuga á að kynna sér einstaka þætti slíkra mála gætu þeir óskað eftir öllum þeim skjölum sem þeir kysu og þar á meðal meðmælabréfum umsækjenda. Fyrir vikið hafi allir ráðherrar jafnan aðgang að gögnunum.