„Við munum rjúfa þing 28. október og senda boltann þannig til kjósenda. Ég hef frá því að þessar aðstæður sköpuðust lagt áherslu á það að bregðast hratt við, leggja áherslu á að koma aftur skipulagi á hlutina,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eftir fund sinn með forseta Íslands.
Bjarni sagði mikilvægt fyrir Íslendinga að fá aftur traust og festu í stjórnmálin í landinu.
Hann sagði stöðuna sem er komin upp núna vera afleiðingu af þeirri stöðu sem var uppi eftir síðustu kosningar. „Það muna allir hversu erfitt var að koma stjórninni saman. Það vissu allir að við vorum að byggja ríkisstjórnarsamstarfið á þriggja flokka stjórnarsáttmála. Ég sagði það opinberlega að þriggja flokka stjórnir hafi aldrei haldið út heilt kjörtímabil. Það hefur aldrei gerst og það gerðist heldur ekki í þetta skiptið,“ sagði Bjarni.
„Ég sagði líka að ég hefði miklar áhyggjur af naumum meirihluta sem varð til þess að fyrst hvarf ég frá stjórnarmyndunarviðræðum við þessa tvo flokka. Svo fannst manni að maður hefði skyldu til þess að rísa undir þeirri ábyrgð sem kjósendur hafa falið manni og gera það sem hægt væri að gera í stöðunni, sem væri að mynda þessa ríkisstjórn. Að þessu leytinu til var veikleiki stjórnarinnar kannski með henni frá upphafi á vissan hátt. Það voru erfiðleikar frá upphafi eftir síðustu kosningar.“
Bjarni vonaðist til að Sjálfstæðisflokkurinn muni áfram sækja fram og styrkja stöðu sína enn frekar og verða áfram kjölfestan í íslenskum stjórnmálum.
Hann sagði öðruvísi um að litast í efnahagsmálum síðan hann kom inn í Stjórnarráðið árið 2013. „Þau verk öll sem ég hef staðið fyrir og leitt í samstarfi við aðra legg ég mjög stoltur í dóm kjósenda.“
Bjarni hélt áfram um stöðuna sem er uppi núna: „Þessar aðstæður komu upp, annar stjórnarflokkurinn talaði um trúnaðarbrest, formaður hins flokksins upplifir engan trúnaðarbrest. Þetta eru aðstæður sem maður ræður ekki við. Mér fannst hafa komið í ljós gríðarlega miklir brestir og veikleikar í smáflokkakerfinu í þessu dæmi hér og hefði kosið að atburðarrásin hefði verið allt önnur."
Bjarni ræddi það sem gerðist eftir fund sinn með formönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þar sem hann greindi frá því að faðir sinn hefði skrifað undir umsagnarbréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmdan barnaníðing. „Það komu upp engar spurningar, ekki daginn eftir, ekki daginn þar á eftir heldur í raun og veru á þriðja degi eftir að við sátum og ræddum nákvæmlega þetta mál, þá lítur annar aðilinn á það allt saman sem trúnaðarbrest. Ég get lítið við því gert. Ég hef lagt mig fram um að byggja gott trúnaðarsamband við alla formenn á þinginu.“
Um væntanlegar kosningar sagði hann marga stjórnmálaflokka vera starfandi og að atkvæði dreifist meira en áður var. „Mín skoðun er sú að það hvernig okkur auðnist að koma betri stjórnfestu á að nýju á Íslandi muni að langmestu leyti ráðast af því hvernig kjölfestan er í stjórninni," sagði Bjarni og lagði áherslu á mikilvægi tveggja flokka stjórnar ef hún yrði í boði.
Spurður kvaðst Bjarni ekki útiloka samstarf við neinn annan flokk við myndun ríkisstjórnar ef sú staða kæmi upp að loknum kosningum.
Hann var spurður út í stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins við Vinstri græna eftir síðustu kosningar. „Til að mynda held ég að það hafi engum formanni Sjálfstæðisflokksins áður látið sér detta það í hug að bjóða Vinstri grænum lyklana að fjármálaráðuneytinu og lagði þar með í þeirra hendur að leggja drög að næstu langtímaáætlun í ríkisfjármálum," sagði Bjarni en tók fram að eingöngu hafi verið um þreifingar að ræða í stjórnarmyndunarviðræðum.
Bjarni sagði það koma til greina að kjósa nýjan varaformann Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar. Það sé ekki alfarið í hans valdi. Miðstjórn flokksins muni setjast niður á miðvikudaginn og ræða þetta.
Spurður út í landsfund Sjálfstæðisflokksins og hvort Bjarni muni bjóða sig aftur fram sem formann sagði hann það erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda landsfund fyrir kosningar. Hann bjóst samt við því að fundurinn fari fram innan skamms. Þar fari fram kjör um forystu flokksins.