„Ég vonast eftir því að þingið muni starfa í einhvern tíma og að við afgreiðum þau mál sem brýnt er að afgreiða.” Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is, rétt áður en hann gekk á fund með forseta Alþingis.
Formenn allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa sitja nú á fundi með Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingi þar sem störf þingsins fram að kosningum verða rædd.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, varð við beiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að rjúfa þing. Þing verður rofið 28. október og gengið til kosninga sama dag.
„Valdið er þingmannanna,” sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann vari inntur eftir svörum um hvort þingið myndi starfa í þær tæpar sex vikur sem eru fram að kjördegi.
Logi telur mörg brýn mál vera á dagskrá þingsins sem nauðsynlegt sé að klára fyrir kjördag í október. „Það eru mál sem varða stjórnarskrá, mál sem varða flóttafólk og hælisleitendur, mál sem varða uppreist æru og það eru mál sem varða notendastýrða persónuþjónustu. Það er ýmislegt.”
Logi sagði á föstudag að ef kosningar yrðu niðurstaða þeirra atburða sem fóru af stað í kjölfar stjórnarslita myndi Samfylkingin fara brött inn í þá baráttu. Það hafi ekki breyst þó aðeins tæpar sex vikur séu til kosninga. „Þetta er ekki spurning um hvort menn séu tilbúnir, heldur spurning um að verða að vera það, og við erum það já.”