Guðni fellst á tillögu um þingrof

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við blaðamenn á Bessastöðum …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við blaðamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur ákveðið að verða við þeirri beiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að rjúfa þing.

Guðni sagði á blaðamannafundi eftir fund hans við Bjarna, að hann hafi kannað möguleika á myndun minnihlutastjórnar eða stjórn sem varist gæti vantrausti. Ljóst hafi verið mjög fljótt að fyrir slíkri ríkisstjórn væri ekki grundvöllur. „Að þeim viðræðum loknum varð ljóst að ekki yrði reynt að mynda nýja stjórn. Jafnframt kom fram ríkur stuðningur við þingrof og kosningar.“

Hann sagði að þing yrði ekki rofið fyrr en 28. október, daginn sem kosningar fari fram. Þingmenn haldi umboði sínu til kjördags.

Guðni tók fram að ráðherrum í þeirri starfstjórn sem nú situr sé eingöngu ætlað að sinna störfum sem æðstu embættismenn, hver á sínu sviði.

Hann beindi orðum sínu til þingmanna og þeirra sem hyggja á framboð. Fólk hlýtur að vænta þess að þeir sem kjörnir verða til setu á alþingi í næsta mánuði geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð og þeirri skyldu að stuðla að stöðugu stjórnarfari í landinu.“

Þingið væri þungamiðja stjórnskipunar landsins. Þangað sæktu ráðherrar og ríkisstjórn umboð sitt. „Því er svo mikilvægt að þingið njóti virðingar manna á meðal - að þingheimur sé traustsins verður.“

Guðni hvatti landsmenn til að nýta atkvæði sitt í komandi kosningum, jafnvel þó „einhvers konar leiði og óþreygja og vonbrigði séu farin að grípa um sig á meðal fólks. Við getum skipt um stjórnir en við skiptum ekki um kjósendur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert