„Holskefla“ umsókna eftir mál Árna

Sigríður Á. Andersen á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Sigríður Á. Andersen á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Eggert

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að umfjöllun fjölmiðla um tiltekin mál varðandi uppreist æru, þar á meðal mál Árna Johnsen, hafi valdið því að holskefla af slíkum umsóknum hafi borist dómsmálaráðuneytinu í gegnum árin.

„Mér sýnist að mjög margir í kjölfarið hafi fengið hugmyndina um að sækja um uppreist æru,“ sagði Sigríður.

Hún bætti við að í tölfræði sem hún lét nýverið taka saman varðandi uppreist æru hafi um helmingur umsækjenda sótt um þegar tvö ár hafa liðið frá afplánun en hinn helmingurinn þegar fimm ár hafa liðið.

Árni Johnsen.
Árni Johnsen. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ráðherrann svaraði því hvers vegna dómsmálaráðuneytið hefði ekki birt öll gögn varðandi uppreist æru frá árinu 1995 á heimasíðu sinni, rétt eins og gert var með mál Róberts Downey.

Hún sagði að gríðarlega margir fjölmiðlar hefðu beðið um gögn í máli Róberts og því hafi þótt eðlilegt að birta gögnin á heimasíðunni.

Hvað varðar gögn sem ná aftur til 1995 sagði hún það vera stórt skref að hafa frumkvæði að því setja slíkar upplýsingar á netið þar sem þær eru „um aldur og ævi“. Annað mál sé að afhenda þær eftir að óskað hafi verið eftir þeim.

Hún hrósaði einnig RÚV fyrir að birta ekki nafn umsagnaraðila eða umsækjenda í sinni frétt um gamalt mál tengt uppreist æru. Þar hafi stofnunin tekið sanngjarnt og eðlilegt tillit til aðila málsins.

Sigríður sagði í lokaorðum sínum að verklag og framkvæmd við öll þessi mál tengd uppreist æru hafi kannski verið í skötulíki. Það skötulíki hafi þó verið með vísan til stjórnsýsluréttar.

„Núna fer fram endurskoðun á þessum lögum sem breytir þessari framkvæmd algjörlega,“ sagði hún og taldi rétt að líta til Norðurlandanna í þessum efnum. Sum þeirra virðist hafa gert breytingar á meðferð slíkra mála fyrir 50 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert