Eigendur veitingastaðarins Fresco segjast slegnir vegna fregna af að ungur maður hafi leitað upp á Landspítala eftir að hafa fundið mús í salati sem hann hafði keypt þar, en neytti annars staðar.
Í tilkynningu sem Fresco sendi frá sér um málið nú undir kvöld segir að um leið og málið kom upp hafi Heilbrigðiseftirlitið farið yfir allt hreinlæti og eftirlit á staðnum og í kjölfarið staðfest „að hreinlæti og öryggi sé í fullkomnu lagi“. Fresco hafi því fengið leyfi til að starfa áfram þar sem ekkert benti til vandamála af neinu tagi.
„Við höfum að sjálfsögðu aðstoðað heilbrigðiseftirlitið eins vel og okkur er unnt og erum að fara í gegnum alla ferla hjá okkur til að ganga rækilega úr skugga um að svona atburðir geti ekki gerst.
Við erum hreinlega slegin vegna þessa máls. Eins og komið hefur fram teljum við útilokað að slíkur aðskotahlutur hafi verið í salatskálinni þegar hún fór út af veitingastaðnum vegna þeirra ströngu hreinlætis- og öryggisferla sem er fylgt hjá okkur við alla meðhöndlun matvæla.
Salat er t.d. umpakkað, þvegið, fer í klakabað og er að lokum útbúið á meðan viðskiptavinurinn fylgist með. Allt ferlið er miðað við að koma í veg fyrir að jafnvel minnstu aðskotahlutir geti komist til neytandans. Öryggi og hreinlæti er númer eitt í allri okkar starfsemi,“ segir í yfirlýsingunni.
Fyrirtækið taki málið mjög alvarlega og þar sé þegar verið að velta við hverjum steini í starfsemi okkar til að afmá allan vafa. „Við höfum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir því miður ekki náð tali af viðkomandi viðskiptavini til að hjálpast að við að fá botn í málið.
Mikilvægast er að viðskiptavinir okkar viti að hjá Fresco er hreinlæti og öryggi við meðhöndlun allra matvæla í fullkomnu lagi, eins og heilbrigðiseftirlitið hefur þegar vottað.
Fresco mun í framhaldinu skoða rétt sinn og leita ráða um hvort rétt sé að málið verði rannsakað frekar af þar til bærum yfirvöldum.“