Sjálfstæðismenn vilja að afgreiðslutími sé lengdur í öllum sundlaugum í Reykjavík, ekki bara sumum líkt og borgarráð samþykkti fyrr í haust.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir tillögu þessa efnis á borgarstjórnarfundinum á mánudag, en hún hefur barist fyrir því á kjörtímabilinu að afgreiðslutími sundlauga borgarinnar verði lengdur.
Í tillögunni ítrekar Sjálfstæðisflokkurinn „að jafnræðis sé gætt í þjónustu milli hverfa borgarinnar og leggur því til að borgarstjórn samþykki að fela ÍTR að gera tillögu, við fjárhagsáætlun fyrir árið 2018, um lengri og samræmdari opnunartíma allra sundlauga í Reykjavík.“
Var tillögunni vísað til fjárhagsáætlunargerðar næsta árs.
„Sund er sú almenningsíþrótt sem flestir stunda,“ er haft eftir Mörtu í fréttatilkynningu. Sundlaugar hafi lengi gegnt mikilvægu hlutverki til eflingar lýðheilsu auk þess sem þær hafi félagslegt gildi fyrir borgarbúa.
Lengri afgreiðslutími eigi að gilda um allar laugar borgarinnar þannig að íbúum sé ekki mismunað eftir hverfum. Lengri afgreiðslutími hefur verið samþykktur í Vesturbæjarlaug og Breiðholtslaug en ekki í Árbænum og í Grafarvogi sem þó eru fjölmenn og barnmörg hverfi.
„Ég vil að allir Reykvíkingar geti notið þeirrar góðu þjónustu og aðstöðu sem sundstaðir borgarinnar hafa upp á að bjóða óháð búsetu.“