Tvær litlar flugvélar rákust saman í háloftunum í íslenskri lofthelgi fyrir um tveimur vikum. Atvikið átti sér stað í um 3.000 feta hæð vestan við Langjökul 5. september og er málið til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Tveir voru innanborðs í hvorri vél en engum varð meint af. Þetta staðfestir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði RNSA, í samtali við mbl.is.
„Það er náttúrulega mjög alvarlegt ef tvær vélar rekast á á flugi, það segir sig sjálft. Þetta er alvarlegt flugatvik sem við erum með til rannsóknar,“ segir Ragnar. Tilkynnt var um atvikið um leið og vélarnar lentu og hófst rannsókn málsins þegar í stað.
Skýrsla var tekin af áhöfnum beggja vélanna en báðar skemmdust þær nokkuð við atvikið. Betur fór en á horfðist en það er ávallt litið grafalvarlegum augum þegar flugvélar rekast á í háloftunum að sögn Ragnars.
Vélarnar sem um ræðir tilheyra flugklúbbi sem Flugskóli Íslands rekur. „Ég veit að það voru einkaflugmenn að fljúga vélum sem var atvik með sem er í rannsókn. Þetta voru ekki kennsluflug hjá skólanum,“ segir Baldvin Birgisson, skólastjóri hjá Flugskóla Íslands.
Bæði nemendur og einkaflugmenn sem það kjósa hafa aðgang að vélum klúbbsins en kveðst Baldvin geta staðfest að einkaflugmenn voru í áhöfnum vélanna þegar atvikið átti sér stað en ekki nemendur. „Til allrar hamingju urðu engin slys á neinum,“ segir Baldvin.