Aðdragandi slita kosningamál

Formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi hittu forseta …
Formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi hittu forseta þingsins í gærdag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnmálaflokkar eru nú flestir komnir á fullt við að undirbúa komandi alþingiskosningar, nú þegar rétt um 5 vikur eru í settan kjördag. Morgunblaðið setti sig í samband við talsmenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi og spurði: Hver verða stóru kosningamálin?

„Það er mikilvægt að mál sem verða til þess að ríkisstjórnin springur, þ.e.a.s. mál er snerta þolendur kynferðisofbeldis, verði til umræðu. Að mínu mati er mikilvægt að þessi mikla atburðarás leiði til þess að hér skapist raunveruleg viðhorfsbreyting í garð þessa málaflokks og að hann komist inn í pólitíska umræðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og bætir við að skarpar víglínur hafi myndast þann stutta tíma sem ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sat við völd.

„Ríkisstjórnin stóð ekki við væntingar um að ráðast ætti í raunverulega uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðarkerfi,“ segir Katrín og heldur áfram: „Nú þegar hvergi hefur verið sótt fram á þessum sviðum vil ég einmitt meina að þessi mál verði einnig ofan á. [...] Við viljum sjá breytingu á ríkisstjórnarstefnu og félagshyggjustjórn að loknum kosningum.“

Klára Evópusambandsmálið

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að kosningamálið verði barátta fyrir mannsæmandi lífi fyrir alla Íslendinga, betra velferðarkerfi og félagslegur stöðugleiki. „Það þarf líka að leggja mikla áherslu á að mæta framtíðinni með kraftmiklu menntakerfi. Síðan eru réttlætismál eins og að þjóðin fái að greiða atkvæði um áframhaldandi viðræður við ESB, það þarf að hnika stjórnarskránni áfram og síðan verða kosningarnar að fá að snúast um raunverulega ástæðu fyrir því að önnur ríkisstjórnin á einu ári fellur. Þjóðin þarf að ræða mál eins og heiðarleika og gegnsæi, annars komumst við aldrei út úr þessu vantrausti sem nú ríkir á milli þjóðarinnar og Alþingis,“ segir Logi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir kosningarnar m.a. munu snúast um aukinn stuðning við þá sem verst hafa það í samfélaginu. „Mál eins og að aldraðir geti verið úti á vinnumarkaði og tekið virkan þátt í samfélaginu,“ segir hann og bætir við að einnig verði áhersla lögð á heilbrigðismál, menntamál. „Ég held það verði einnig rætt um ferðaþjónustuna og náttúruna sem orðið hefur fyrir miklum áhrifum af þessari stærstu atvinnugrein okkar,“ segir hann og bendir á að brýnt sé að ferðaþjónustan verði sjálfbær. „Þegar nær dregur kosningum skýrast línur enn frekar og áherslan færist yfir á fáein mál,“ segir hann.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir aðdraganda og ástæðu stjórnarslita hljóta að verða stórt kosningamál. „Í ljósi þessi að við vorum að slíta stjórnarstarfi, rétt fyrir helgi, út af grunnprinsippmálum um vinnubrögð og gagnsæi, þá er það mjög ofarlega í huga.“

Þá segjast Píratar vera að vinna í sínum helstu stefnumálum um þessar mundir og verða þau kynnt á næstu dögum í endanlegri mynd.

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, formaður Flokks fólksins, næði samkvæmt könnunum mönnum inn á þing. Hún segir flokkinn berjast fyrir almannahag. „Við viljum útrýma fátækt. Hún er þjóðarskömm. Við viljum taka til hendinni í sambandi við húsnæðismál, afnema frítekjumarkið með öllu og verðtryggingu og okurvexti auk þess að við viljum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.“

Ekki náðist í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, við gerð fréttar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert