Fékk spritt í stað hægðalosandi lyfs

Sigríður Valdimarsdóttir með son sinn í fanginu á bráðamóttökunni.
Sigríður Valdimarsdóttir með son sinn í fanginu á bráðamóttökunni. Ljósmynd/Aðsend

Móðir 19 mánaða gamals drengs fékk afgreitt vitlaust lyf í apóteki og gaf honum sólarspritt til inntöku í stað sorbitol sem er hægðalosandi lyf. Öndunarvegur drengsins lokaðist og hann hóstaði og kúgaðist. Foreldrar hans fóru beint með hann á bráðamóttökuna þar sem hann var undir eftirliti í dágóðan tíma. Drengurinn hefur hóstað mikið en jafnar sig smám saman en sólarsprittið er ekki ætandi en í því er 78% alkóhól auk fleirri aukaefna enda ætlað til notkunar við exemi.  

Sigríður Valdimarsdóttir segir son sinn hafa glímt við hægðatregðu í nokkra daga sem fylgdi talsverður grátur og tilheyrandi óþægindi. Úr varð að hún hafði samband við hjúkrunarfræðing á Læknavaktinni sem ráðlagði henni að kaupa sorbitol og microlax í apóteki. Sigríður fór í apótekið í þeim erindagjörðum og taldi sig hafa fengið góða þjónustu tveggja starfsmanna sem aðstoðuðu hana en umræddar vörur voru ekki í sjálfsafgreiðslu og fann starfsmaður þær því til. 

Afgreiðslan úr apótekinu, sólarspritt og microlax.
Afgreiðslan úr apótekinu, sólarspritt og microlax. Ljósmynd/Aðsend

Í gærkvöldi um kl. 19 þegar drengurinn var nýkominn úr baði bað Sigríður manninn sinn um að finna til 5 ml af sorbitol til að gefa drengnum. „Ég tók við þessu og gaf honum. Það hvarflaði ekki að mér annað en að þetta væri sorbitol. Um leið og hann fékk sprittið lokaðist öndunarvegurinn og hann kúgaðist og hóstaði. Ég hringdi strax í 112 og þeir vísuðu mér á neyðarsímann sem svarar fyrir eiturefni. Við áttum að fara með hann strax á bráðmóttökuna og fengum að fara strax með hann í forgang,“ segir Sigríður. Þar var drengurinn skoðaður vel og þau fengu að fara heim að skoðun lokinni.

 „Hann hóstaði rosalega mikið þegar við vorum komin heim. Okkur bauðst að fara með hann á Barnaspítalann og hafa hann þar yfir nóttina en um eittleytið í nótt var hann farinn að róast aðeins og við vildum ekki raska ró hans meira,“ segir Sigríður eftir svefnlitla nótt. Drengurinn er að jafna sig en hóstar ennþá aðeins.  

Mannleg mistök

„Auðvitað voru þetta mannleg mistök en það fylgir því mikil ábyrgð að afgreiða lyf, sérstaklega fyrir lítil börn. Þetta vekur vonandi foreldra og starfsmenn betur til umhugsunar. Maður lærir af þessu að vera betur meðvitaður um vörurnar sem maður notar,“ segir Sigríður. 

Hún bendir á að umbúðir á sorbitol og sólarspritti frá fyrirtækinu Gamla apótekinu séu mjög líkar. „Mér finnst fyrirtækið líka bera ábyrgð á því að hafa nánast sömu umbúðir á ólíkum vörum sem eru ætlaðar til inntöku og til að nota útvortis,“ segir Sigríður. 

Starfsfólk spítalans benti þeim á að tilkynna þetta alvarlega atvik til Embættis landlæknis, sem þau ætla að gera. Hins vegar vill Sigríður ekki nafngreina apótekið enda um mannleg mistök að ræða.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert