Krefjast varðhalds yfir erlendum manni

Konan bjó á Hagamel en annar mannanna bjó einnig í …
Konan bjó á Hagamel en annar mannanna bjó einnig í sama húsi. mbl.is/Golli

Erlendur karlmaður á fertugsaldri er grunaður um að hafa veitt konu á Hagamel áverka sem leiddu til dauða hennar í gærkvöldi. Farið verður fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum í dag.

„Atburðarásin liggur fyrir í stórum dráttum,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. Kona á fimmtugsaldri, af erlendu bergi brotin, lést á spítala af völdum áverka sem henni voru veittir í íbúðinni í gærkvöldi. Hann segir að gæsluvarðhalds verði krafist í dag yfir öðrum mannanna sem handtekinn var. Sá maður sé á fertugsaldri.

Fram hefur komið að erlendur karlmaður á fertugsaldri og Íslendingur á þrítugsaldri hafi verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Þeir voru á vettvangi þegar lögregla mætti á Hagamel í gær. Í upplýsingum um aldur þess sem lögreglan vill hneppa í varðhald felst að það er erlendi karlmaðurinn sem er grunaður um verknaðinn.

Ekki verður farið fram á gæsluvarðhald yfir hinum manninum.

Samstarfsfúsir við yfirheyrslur

Grímur segir að málið sé rannsakað sem manndrápsmál og línur séu farnar að skýrast. „Málið lítur þannig út að það sé einn maður sem er grunaður um verknaðinn,“ segir Grímur.

Hann segir aðspurður að hinir grunuðu í málinu hafi reynst samstarfsfúsir og að yfirheyrslur yfir þeim hafi varpað ljósi á málsatvik. Vísir hafði eftir sjónarvottum í dag að annar mannanna hefði veitt mikla mótspyrnu þegar hann var leiddur út úr íbúðinni í gær. Grímur segir að honum sé ekki kunnugt um það.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Hanna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert