„Við þurfum að sýna hugrekki og þor og taka umræðuna,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, um hatursorðræðu í íslensku samfélagi.
Þorsteinn hélt opnunarávarp á ráðstefnu Æskulýðsvettvangsins um hatursorðræðu í íslensku samfélagi sem stendur nú yfir í Hörpu.
Þorsteinn segir Íslendinga vera langt á eftir þegar kemur að skilgreiningu og viðbrögðum gegn hatursumræðu á netinu. „Við erum að dragast aftur úr.“
Þorsteinn segir stjórnvöld eiga mjög langt í land með að koma lagaumhverfinu í rétt horf og skerpa á skilningnum hér á landi um hatursorðræðu. Það sé í vinnslu og hafi hann stigið skref í þá átt að setja heildarlöggjöf í þessa átt hér á landi.
Aukin fræðsla skiptir höfuðmáli í baráttunni gegn hatursorðræðu að mati Þorsteins. „Við erum í mjög mörgum tilvikum að glíma við fordóma sem stafa af reynsluleysi, oft vanhugsuð viðbrögð, fáfræði og vanþekkingu,“ segir hann.
Þorsteinn benti á umræðu máli sínu til stuðnings þar sem aðstoð stjórnvalda við flóttafólk hefur verið borin saman við stöðu heilbrigðis- og félagslega kerfisins á Íslandi. „Það er ekki boðlegt að stilla upp þessu sem andstæðum kostum. Að sjálfsögðu er hægt að sinna báðum hópum,“ segir Þorsteinn.
„Við erum að rétta flóttafólki hjálparhönd, sem er að flýja skelfilegt ofbeldi. Við getum líka sinnt þeim sem minna mega sín og líða skort í samfélaginu. En tökum þetta ekki þangað. Tökum umræðuna á þann veg að okkur ber skylda til að gera þetta en hitt líka.“
Þorsteinn benti jafnframt á mikilvægi þess að bregðast við vanþekkingu og fordómum og svara þeim sem héldu úti hatursumræðu í athugasemdakerfum á frétta- og samfélagsmiðlum. „Þessir þræðir tæmast þegar einhver opinberar fordóma. Við eigum ekki að láta kveða okkur í kútinn. En stjórnvöld þurfa að gera það sem að þeim snýr.“
Þorsteinn segist vongóður um að málefni líkt og hatursumræða og hvernig megi taka á henni verði áberandi í umræðunni í komandi kosningabaráttu.