Frítekjumark tekna ellilífeyrisþega verður hækkað upp í 100.000 krónur á mánuði verði Sjálfstæðisflokkurinn við völd eftir kosningar. Þetta kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar formanns á fundi flokksmanna á Hótel Nordica í dag. Hann sagði frítekjumarkið vera það mál sem brynni helst á eldri Sjálfstæðismönnum þessa dagana.
Ellilífeyrir hins opinbera er í dag 227.883 krónur á mánuði. Atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur umfram 25.000 króna frítekjumark skerða hins vegar lífeyrinn um 45%. Samhliða hækkun frítekjumarksins er stefnt að því að ellilífeyririnn hækki upp í 300.000 krónur á mánuði nú um áramót. Bjarni sagði einnig nauðsynlegt að ljúka samtalinu við öryrkja.
Heiðarleg umræða um fjármögnun vegakerfisins
Ríkisstjórnin sem nú fer frá völdum hafði metnaðarfull áform á öllum sviðum umhverfismála og sagði Bjarni enga ríkisstjórn hafa haft jafnskýra áætlun. Samhliða því sem þjóðin færi sig frá bensínknúnum bílum yfir í umhverfisvænni kosti minnki skattstofn hins opinbera af t.d. bensíni. „Menn verða að geta tekið heiðarlega umræðu um það hvernig á að borga fyrir vegakerfið.“ Hugmyndir Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um tolla á helstu vegum í kringum höfuðborgina hafa fengið misjafnar viðtökur.
„Þetta er risavaxið verkefni sem okkur einum er treystandi til að leiða,” sagði Bjarni.
Bjarni sagði fyrirsjáanlegt að Landsvirkjun skilaði 15-20 milljarða króna hagnaði á ári hverju, en rekstur fyrirtækisins hefur batnað mikið að undanförnu og eru þær tölur í samræmi við áætlanir fyrirtækisins. Boðaði hann að hluti þess penings yrði lagður til hliðar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Oft hafa upp hugmyndir sérstakan auðlindasjóð í þeim tilgangi komið fram, og lýsti Bjarni meðal annars vilja til þess á ársfundi Landsvirkjunar 2015 án þess að nokkuð hafi enn verið gert.
Tryggja öllum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu
Kunnugleg stef komu fram í ræðu formanns. Lagði hann áherslu á góða stöðu hagkerfisins, lága verðbólgu, lítið atvinnuleysi og þann árangur sem náðst hefur í að lækka skuldir. Þetta svigrúm mætti nýta til innviðauppbyggingar.
Heilbrigðiskerfið verður eitt forgangsmála flokksins í kosningabaráttunni. Sagði hann nauðsynlegt að klára heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland þar sem hlutverk t.d. Landspítala, heilsugæslustöðva og einkarekinna stofa væri skilgreint. Þannig mætti nýta féð betur. „Þjónustan verður að vera fyrsta flokks og við ætlum að tryggja öllum jafnt aðgengi.“
Þá boðaði Bjarni að álögur á atvinnulífið yrðu lækkaðar þegar þær aðstæður skapast að rekstrarskilyrði versni.