Í nóvembermánuði munu Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri afhenda tæki og búnað að andvirði tæplega 40 milljóna króna. „Við höfum verið ansi drjúg en það hittir þannig á fyrir tilviljun að nóvembermánuður verður óvenjustór hjá okkur,“ segir Jóhannes Bjarnason, formaður hollvinasamtakanna, í samtali við mbl.is.
Hollvinasamtökin voru stofnuð í desember árið 2013 frá upphafi hafa samtökin fært sjúkrahúsinu gjafir að andvirði á fjórða hundrað milljóna ef talin eru með tækin sem afhent verða í nóvember.
Stærsta og dýrasta tækið sem hollvinasamtökin munu afhenda spítalanum er svokölluð ferðagjörgæsla fyrir nýbura sem þarf að senda með sjúkraflugi. Þá munu samtökin festa kaup á æfingatækjum og búnaði fyrir endurhæfingarmiðstöðina á Kristnesi í Eyjafirði og nýju bakskurðaðgerðaborði auk tækjabúnaðar fyrir þvagfæraskurðlækningar.
„Þar af er náttúrulega langstærst ferðagjörgæsla í sjúkraflug fyrir veika nýbura. Þetta er sem sagt fyrir kornabörn sem fæðast veik og þurfa að komast suður á vökudeild og þetta er geysilega fullkomið tæki með öndunarvél og öllum græjum,“ útskýrir Jóhannes en tækið mun leysa af hólmi önnur úrelt tæki.
Kristnesspítali verður 90 ára á þessu ári og ætla hollvinasamtökin að endurnýja hjá þeim endurhæfingartækin sem þau munu afhenda ásamt ýmsum annars konar útbúnaði á afmælisdaginn 1. nóvember.
„Það er mjög mikill kraftur í þessum félagsskap. Það eru náttúrulega komnir á fjórða þúsund félagar sem eru í hollvinasamtökunum sem er nú ansi drjúgt í ekki stærra bæjarfélagi,“ segir Jóhannes sem kann öllum hollvinum samtakanna miklar þakkir.