„Raddir fólksins“ komu saman til útifundar á Austurvelli í dag þar sem helstu mál á dragskrá voru umræður um stjórnarskrána og stjórnarslitin í síðustu viku. Fundurinn var stuttur og laggóður að sögn Harðar Torfasonar, fundarstjóra og skipuleggjanda útifundarins en ræðumenn voru þau Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bergur Þór Ingólfsson leikari og leikstjóri.
„Hann var mjög góður, virkilega ánægt fólk og fólk er ánægt að þeir séu byrjaðir aftur útifundirnir. Þeir verða alls fimm núna hvern laugardag til kosninga,“ segir Hörður um fundinn í samtali við mbl.is. Að sögn Harðar verður stjórnarskráin sennilega rauði þráðurinn á dagskrá útifundanna sem verða fjórir í viðbót nú í aðdraganda alþingiskosninga.
Hörður kveðst ánægður með mætinguna á Austurvöll og segir fleiri hafa mætt en hann hafi búist við enda mikil rigning og veðrið ekki eins og best verður á kosið.