„Við vorum í raun að prufukeyra landsliðið ef svo má segja,“ segir Ragnheiður Héðinsdóttir, viðskiptastjóri matvælaiðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins, en íslenska bakaralandsliðið tók um helgina þátt í Norðurlandakeppni í bakstri í Stokkhólmi. Íslendingar hafa ekki átt landslið í bakstri fyrr en á þessu ári, og tóku því í fyrsta sinn þátt í keppninni nú um helgina.
Keppnin kláraðist í gær og segir Ragnheiður að allt hafi gengið ljómandi vel þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki lent á verðlaunapalli. „Liðið stóð sig með prýði og kláraði sitt verkefni. Þetta var mjög skemmtilegt og afskaplega lærdómsríkt fyrir okkur öll,“ segir hún.
Norðurlöndin hafa keppt í bakstri síðastliðin ár, en þetta var í fyrsta sinn sem Íslendingar senda lið í keppnina. Þar sem um frumraun var að ræða segir Ragnheiður að markmiðið hafi ekki síst verið að prófa sig áfram og sjá hvað aðrir væru að gera. „En það var alls ekki þannig að við stæðum hinum liðunum eitthvað langt að baki,“ segir hún.
Að sögn Ragnheiðar mun liðið halda ótrautt áfram, en í liðinu eru sex ungir bakarar sem hafa á undanförnum mánuðum æft sig í ýmiss konar brauðmetis- og skrautstykkjagerð. „Við erum algjörlega sannfærð að við eigum fullt erindi í þessa keppni,“ segir Ragnheiður.
Keppt var í þremur flokkum; brauðgerð, gerð sætra smástykkja og gerð skrautstykkis úr ætilegu hráefni. Þema keppninnar voru kvikmyndir og var bökurunum frjálst að velja hvað sem er innan þess þema. Íslenska liðið valdi kvikmyndina Mary Poppins og voru öll keppnisstykkin tengd myndinni á einhvern hátt.
Norska liðið fór með sigur af hólmi sem besta liðið og einnig í flokkum bestu brauða og smástykkja. Þá sigraði danska liðið fyrir besta skrautstykkið.
Landsliðið keppti á vegum Landssambands bakarameistara, LABAK, við lið frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þjálfari bakaralandsliðsins er Ásgeir Þór Tómasson, fagstjóri baksturs í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.
Íslenska bakaralandsliðið talið frá vinstri: Ásgeir Þór Tómasson, þjálfari liðsins, Anna Magnea Valdimarsdóttir, Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, Birgir Þór Sigurjónsson, Aðalheiður Dögg Reynisdóttir, Stefán Hrafn Sigfússon og Daníel K. Ármannsson.