Erlendur karlmaður á fertugsaldri sem grunaður er um að hafa veitt konu á fimmtugsaldri áverka á Hagamel á fimmtudagskvöld, sem leiddu til dauða hennar, hefur ekki verið yfirheyrður um helgina. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn vill ekki gefa upp hvort játning liggi fyrir í málinu, en farið var fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir manninum á föstudag.
Gert er ráð fyrir því að endanleg niðurstaða um dánarorsök konunnar muni liggja fyrir eftir krufningu, sem fer fram á morgun. Talið er að einhvers konar vopni eða áhaldi hafi verið beitt við árásina, en Grímur vill ekki gefa upp hvers kyns vopnið sé.
Komið hefur fram að konan og maðurinn hafi átt í stuttu persónulegu sambandi. Konan er erlendur ríkisborgari, en Grímur segir að unnið sé að því í samstarfi við yfirvöld í hennar heimalandi að hafa samband við ættingja hennar.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum, en hann var á föstudag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Grímur segir að það muni skýrast síðar í vikunni hvort krafist verði áframhaldandi varðhalds yfir manninum.
Spurður um það hvort maðurinn hafi játað sök vill Grímur ekki gefa það upp. „Við höfum yfirheyrt og við höfum ekki gefið upp hvað hefur komið fram í yfirheyrslum,“ segir hann.
Grímur segir hins vegar að maðurinn hafi ekki verið yfirheyrður um helgina. „Við höfum bara verið í öðru hvað þetta mál varðar,“ segir hann. Spurður um hvað felist í því segir hann það vera að safna gögnum og sinna rannsókn málsins að öðru leyti.
Maðurinn var handtekinn á Hagamel á fimmtudagskvöld eftir að lögreglu barst tilkynning vegna mikilla láta úr íbúðinni. Lögregla og sérsveit mætti á vettvang stuttu síðar og var konan samstundis flutt af vettvangi í sjúkrabíl, en hún lést af völdum áverka sinna.
Hinn grunaði og Íslendingur á þrítugsaldri voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Þeir voru á vettvangi þegar lögregla mætti á Hagamel í gær. Ekki var farið fram á varðhald yfir Íslendingnum, en hann er ekki talin tengjast manndrápinu.