Fundinum ætlað að „kveikja elda“

Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, hélt upphafserindi …
Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, hélt upphafserindi íbúafundarins í íþróttahúsinu á Ísafirði. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Þessum fundi er ætlað að kveikja elda, sagði Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, við upphaf íbúafundar á Ísafirði í dag. Á fundinum var lögð áhersla á þrjú mál: Raforkuöryggi, samgöngur og sjókvíaeldi en öll eru þau mikið í deiglunni þessa dagana. Pétur sagði að eldarnir ættu að lifa í kjölfar fundarins, í gegnum kosningabaráttu og inn í stefnumótum stjórnmálanna, „og næstu misseri þangað til okkar mál, Vestfirðinga, verða til lykta leidd.“

Um 450 manns mættu á fundinn sem fram fór í íþróttahúsinu á Ísafirði.

Fjórir starfandi ráðherrar mættu á fundinn, þar af þrír sjálfstæðismenn, þau Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála,-iðnaðar- og nýsköpunar og svo Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála.

Pétur Markan sagði í upphafserindi fundarins að hringtenging rafmagns í fjórðungnum væri eitt helsta áherslumálið. „Hringtenging mun skapa raforkuöryggi og aðstæður sem samkeppnishæft samfélag þarfnast.“ Þá nefndi hann laxeldið sem hann segir að myndi hafa byltingarkennd áhrif á búsetuskilyrði og lýðfræðilega þróun á Vestfjörðum. Hvað samgöngumál varðar ræddi hann, sem og fleiri sem tóku til máls á fundinum um veg um Gufudalssveit sem í almennri umræðu er kallaður vegurinn um Teigsskó. „Það þarf bara að klára málið. Það er enginn sómi af því fyrir hvern þann kjörinn fulltrúa sem gæti [haft áhrif] með einhverjum ráðum og dáðum, að gera ekkert og sitja hjá. Það skiptir engu máli hvar sá fulltrúi situr og hvaða flokksfundi hann sækir.“

Pétur benti ennfremur á að Vestfirðingar væru ekki að horfa til einhverrar „túrbó innviðauppbyggingar“ eins og ráðist hafi verið í víða annars staðar. „Auðvitað heyrast margar raddir innan fjórðungsins og auðvitað höfum við skiptar skoðanir. En ef hér á að verða bylting í búsetu þá þurfum að standa saman sem eitt væri.“

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur talaði um náttúruna og notkun hennar …
Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur talaði um náttúruna og notkun hennar í erindi sínu. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur og skáld frá Ísafirði, talaði um náttúruna og nýtingu hennar í erindi sínu. „Maður lifir ekki bara í náttúrunni, maður deyr líka í náttúrunni,“ sagði Eiríkur. „Og þess á milli beislar maður náttúruna.“

Sagði hann engan hafa áhuga á því að eyðileggja náttúruna og ef stunda ætti aukið sjókvíaeldi í fjórðungnum „þurfum við að treysta því að regluverkið sé grjóthart.“ Eiríkur sagði sagði hægt væri að draga úr vistspori mannsins en ekki láta það hverfa. „Allri tilveru fylgir fórnarkostnaður.“

Eiríkur sagði að svo virtist sem önnur lögmál giltu um smærri byggðir en höfuðborgarsvæðið þar sem valdið hefði hreiðrað um sig. „Stundum er eins og hér rekist stöðugt á tvær ólíkar þjóðir, Vestfirðingar og þeir sem vilji hafa vit fyrir þeim.“

Sagði Eiríkur hvorki sátt né samlyndi í því fólkið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta og megi ekki hafa lifibrauð af. „Að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki „ballans“, það er ofbeldi.“

Guðrún Finnbogadóttir, íbúi á Patreksfirði, ræddi um uppbygginguna sem átt …
Guðrún Finnbogadóttir, íbúi á Patreksfirði, ræddi um uppbygginguna sem átt hefur sér stað þar í tengslum við sjókvíaeldið. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Guðrún Finnbogadóttir, sem býr og starfar á Patreksfirði sagði að atvinnulífið í sveitarfélaginu væri að vakna af dvala og að búa þar væri eins og að búa í vorinu. Ný fyrirtæki væru að spretta upp. Vestfirðingar sem lengi hafi þráð að búa í firðinum sínum væri að koma aftur. 

Hins vegar hefðu innviðir ekki fylgt þessari auknu atvinnuuppbyggingu. Einu öruggu samgöngurnar væru ferja og flug einu sinni á dag, sex daga vikunnar. Þá hefði opinber þjónusta dregist saman á Vestfjörðum, m.a. heilbrigðisþjónusta, og þar réði heilbrigð skynsemi ekki alltaf för.

Guðrún nefndi virkjanamál í fjórðungnum í erindi sínum. Hún sagði að í upphafi hafi verið virkjað á Íslandi til hagsældar fyrir íbúa og minni fyrirtæki. Hin síðari ár hafi orkan hins vegar verið notuð til stóriðju. Nú væri svo komið að ekki væri til næg raforka í landinu til að senda til Vestfjarða til að bæta þar mannlífið.

Hvað fyrirhugaða Hvalárvirkjun varðar sagði Guðrún að hún hefði ekki heyrt neinn í fjórðungnum nefna að hann vildi stóriðju og stórspjöll á náttúru. Hins vegar vildi fólk bætt raforkuöryggi og umhverfisvæna orku og vöxt og viðgang á svæðinu. Hún sagði vitað ferðamenn elski víðernin og náttúruna en að flestir þeirra heimsæktu Reykjavík og nágrenni á dúnmjúkum malbiksvegum. Slíku væri ekki að heilsa á Vestfjörðum. „Grunninnviðir þurfa að vera í lagi og í takti við þarfir nútímans. „Vestfirðingar vilja öflugt atvinnulíf í fullri sátt við náttúruna.“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði að skoða bæri verndun …
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði að skoða bæri verndun svæðisins þar sem fyrirhuguð Hvalárvirkjun myndi rísa. Ljósmynd/Halldor Sveinbjörnsson

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands rifjaði upp stofnun friðlandsins á Hornströndum fyrir rúmum fjörutíu árum. „Það er besta fjárfesting sem gerð hefur verið í þessum fjórðungi.“

Hann bendi á að góður akkur væri í því fyrir Vestfirðinga að friða það svæði sem fyrirhugað er undir Hvalárvirkjun. Sá möguleiki sé lítt kannaður. „En það er alveg þess virði að kanna hvort að það sé ekki betur fjárfest í því að vernda svæðið en virkja það.“

Árni benti á að þegar þolinmæði fólks brysti, eins og sýndi sig á Austfjörðum um árið, þá þætti það góður leikur að kenna náttúruvernd um hvernig komið sé fyrir ákveðnum svæðum. Stjórnmálamönnum væri ekki kennt um. 

Á fundinum var kynnt niðurstaða greiningar KPMG á samfélagslegum og hagrænum áhrifum laxeldis í Ísafjarðardjúpi. Hér má lesa um þá skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert