Eigandi veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri, Rosita YuFan Zhang, hefur ákveðið að leita réttar síns vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um málefni veitingastaðarins. Hún hefur óskað eftir því við lögmann sinn, Jóhannes Má Sigurðarson, að undirbúa stefnu á hendur Rúv, fréttamanni og öðrum sem ábyrgð kunna að bera. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Þann 30. ágúst sl. var greint frá því í beinni útsendingu í kvöldfréttum Rúv að grunur léki á því að umbj. minn stundaði mansal, samkvæmt heimildum frá starfsmönnum stéttarfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri.
Greint var frá því að kínverskir starfsmenn staðarins, sem hafi fengið loforð um góða atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir, fengju greiddar 30 þ. krónur á mánuði, matarafganga að borða, og að fulltrúar stéttarfélagsins væru nú að skoða ásamt fleiri opinberum aðilum hver „finni fólkið í Kína og komi því hingað til lands“.
Í samtali við fréttamann Rúv á Akureyri, þann 31. ágúst, að loknum fundi með umbj. mínum og Einingu-Iðju, upplýsti undirritaður lögmaður fréttamann um það að á fundinum hafi formaður stéttarfélagsins og verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits fullyrt að rangt væri að heimildir þessar væru frá þeim komnar. Í kjölfarið ítrekaði stéttarfélagið þetta í yfirlýsingu sinni, dags. 5. september. Að auki var þar greint frá því að upplýsingar sem fram komu í þeim gögnum sem kallað var eftir stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum.
Fréttatilkynningu þessari fylgir bréf frá umbj. mínum þar sem hún telur rétt að kynna sig fyrir landsmönnum vegna hinnar miklu fjölmiðlaumfjöllunar sem málið hefur fengið. Lýsir hún í eigin orðum afleiðingum fréttaumfjöllunarinnar, og nefnir m.a. að 30. ágúst hafi verið myrkur dagur í lífi hennar og fjölskyldunnar. Hafi hún verið að koma af skólasetningu Tónlistarskólans á Akureyri með 8 ára dóttur sinni, og ætlunin hafi verið að snæða kvöldverð á veitingastaðnum. Þegar þangað var komið hafi þeim mætt lið fréttamanna með myndavélar og tækjabúnað, sem hafi reynst dóttur hennar afar erfitt. Hafi dóttir hennar í kjölfarið falið sig hágrátandi inni á veitingastaðnum og haft miklar áhyggjur af því hvort móðir hennar væri að fara í fangelsi.
Þessu lýsir hún í eigin orðum í meðfylgjandi bréfi, ásamt m.a. upphafi búsetu sinnar á Íslandi, stolti sínu á því að geta kallað sig íslending, ásamt fjölmörgum verkefnum sem hún hefur stýrt og komið að á einn eða annan hátt. Þau verkefni hafa mörg hver varðað samskipti íslenska ríkisins og Kína. Í samskiptum ríkjanna hafi hún margsinnis staðið við hlið háttsettra fulltrúa kínverska alþýðulýðveldisins sem og fulltrúa íslenska ríkisins, einkum forseta Íslands, m.a. í heimsóknum hans og samskiptum við kínversk stjórnvöld. Greinir hún frá því að árið 2010 hafi hún haldið blaðamannafund á 5 stjörnu hóteli í Shanghai-borg, þar sem forseti Íslands, 600 kínverskir söluaðilar og fulltrúar 20 fjölmiðla voru viðstaddir. Þessi fundur varð til þess að auka mjög sölu á íslenskum vörum í Kína, og opnaði m.a. á viðskiptasamband íslenskra vara í gegnum fyrirtækin Alibaba og AliExpress, sem margir Íslendingar þekkja vel. Þá sé hún frumkvöðull í ferðaþjónustu Kínverja til Íslands. Sjá nánar í meðf. bréfi.
Rík skylda hvílir á fjölmiðlum og fréttamönnum að fylgja siðareglum, starfsreglum og öðrum hátternisreglum, sérstaklega þegar kemur að umfjöllun um meinta refsiverða háttsemi, en mansal varðar allt að 12 ára fangelsi. Að þessu var ekki gætt við fréttaflutning Rúv þann 30. ágúst sl. Hefur umbj. minn því ákveðið að leita réttar síns og falið undirrituðum að undirbúa stefnu á hendur Rúv, fréttamanni og öðrum sem ábyrgð kunna að bera.
Að endingu er rétt að benda á að jafnóvönduð fréttamennska sem þarna fór fram af hálfu ríkisfjölmiðils gegn umbj. mínum og virtum kínverskum matreiðslumönnum og fjölskyldum þeirra, gæti hæglega haft áhrif á milliríkjasamband Íslands og Kína, en það er von undirritaðs að svo verði ekki,“ segir í fréttatilkynningunni.
Uppfært klukkan 14:35:
Hvorki Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður Rúv, né Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Rúv, vildu tjá sig um málið að svo stöddu þegar blaðamaður mbl.is leitaði eftir því. Málið sé í skoðun.