Listaverkið „Orbis et Globus“ – Hringur og kúla – var vígt í Grímsey fyrr í dag. Það var byggt eftir vinningstillögu Kristins E. Hrafnssonar og Studio Granda í samkeppni sem haldin var um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn. Verkið er staðsett nyrst á eynni.
Listaverkið er kúla, þrír metrar í þvermál, og færist hún í samræmi við hreyfingar heimskautsbaugsins þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.
Forsaga málsins er sú, segir á vef Akureyrar, að tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013 og voru úrslit í samkeppninni kunngjörð í mars 2014. „Nú loks er kúlan komin á sinn stað og var hún vígð í blíðskaparveðri á heimskautsbaugnum að viðstöddum fjölda gesta.“
Ávörp fluttu Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Kristinn E. Hrafnsson listamaður og Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu. Þorkell Ásgeir Jóhannsson lék á básúnu fyrir og eftir vígslu verksins og eftir ávarp Kristins blésu þeir félagar Kristinn og Steve sápukúlum í kringum verkið.