Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur sent upplýsingabeiðni til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún óskar eftir aðgangi að ýmsum gögnum er varða málsmeðferð uppreistar æru í víðum skilningi.
Þórhildur segir beiðnina vera lið í því að gera fulltrúum Pírata kleift að meta hvort tilefni sé til formlegrar rannsóknar nefndarinnar eða ekki.
Gögnin sem Þórhildur óskar eftir eru listi yfir öll málsgögn í málum Róberts Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson) og Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Einnig er óskað eftir minnisblöðum dómsmálaráðuneytis til dómsmálaráðherra þar sem mælt er með uppreist æru eða fjallað um veitingu uppreistar æru Róberts og Hjalta.
Jafnframt er óskað eftir öllum málsgögnum varðandi ákvörðun dómsmálaráðherra um að veita ekki fleiri einstaklingum uppreist æru og hefja endurskoðun á lagaákvæðum er varða uppreist æru.
Þá er óskað eftir gögnum um dagbókarfærslur eða sambærileg gögn sem staðfesta símtal dómsmálaráðherra við forsætisráðherra þar sem dómsmálaráðherra kynnir forsætisráðherra að Benedikt Sveinsson sé meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns Haukssonar.
Að lokum er óskað eftir minnisblöðum dómsmálaráðuneytis til forsætisráðuneytis um uppreist æru vegna Hjalta Sigurjóns Haukssonar og Róberts Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson) vegna veitingar uppreistar æru.