Ríkisútvarpið og Guðmundur Spartakus Ómarsson hafa komist að samkomulag um málalok vegna málshöfðunar Guðmundar á hendur Ríkisútvarpinu og þrjá núverandi og fyrrverandi fréttamenn RÚV og útvarpsstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, lögmanni Guðmundar.
„Samkomulagið felur í sér að Guðmundur fær greiddan málskostnað og miskabætur, en telst að öðru leyti trúnaðarmál,“ segir í tilkynningunni.
„Þetta er trúnaðarmál og það er hluti af sáttinni að menn muni ekki upplýsa um meira en það sem fram kemur í þessari fréttatilkynningu,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, sagðist ekki geta tjáð sig um málið í samtali við mbl.is.
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. september og var höfðað „til ómerkingar á ærumeiðandi ummælum og greiðslu miskabóta vegna ítrekaðra ærumeiðinga og brota á friðhelgi einkalífs stefnanda, í fréttum sem birtar voru í fjölmiðlum stefnda, RÚV ohf., 14. janúar til 20. maí 2016,“ líkt og segir í stefnunni. Nú er ljóst að aðalmeðferð málsins fer ekki fram.
Ummælin sem um ræðir tengjast sjö fréttum þar sem haft var eftir paragvæska dagblaðinu ABC og blaðamanni þess að Guðmundur væri talinn valdamikill fíkniefnasmyglari þar í landi. Í stefnunni var krafist að samtals 28 ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk.
Ríkisútvarpið þarf ekki að biðjast afsökunar á þeim ummælum sem um ræðir og þarf þar að auki ekki að draga þær til baka eða leiðrétta.