Þurfum að hætta að breyta nemendum

Edda Óskarsdóttir skrifaði um nám án aðgreiningar í doktorsritgerð sinni.
Edda Óskarsdóttir skrifaði um nám án aðgreiningar í doktorsritgerð sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gengur ekki að við séum að byggja upp tvö ólík skólakerfi, annars vegar almennt skólakerfi og hins vegar sérkennslu. Við þurfum að byggja skólann upp sem heild,“ segir Edda Óskarsdóttir. Þetta kemur fram í doktorsritgerð hennar um nám án aðgreiningar sem hún varði nýlega við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Skipulag stuðnings í skóla án aðgreiningar: fagleg sjálfsrýni.  

Edda bendir á að hverjum bekk tilheyri fjölbreyttur hópur nemenda og til að nám og kennsla gangi upp þarf virkt samstarf milli kennara og þeirra sem eru með meiri sérþekkingu t.d. á sérkennslu til að gera nemendum kleift að ná árangri í skólanum. Þetta samstarf þarf ekki endilega að vera byggt á því að taka nemandann út úr kennslustofunni heldur þarf að skipuleggja kennsluna með þeim hætti að nemendur geti valið námsefni og námsaðferðir sem höfða til þeirra. „Í stað þess að kennarar skipuleggi eina leið fyrir meirihluta nemenda og eitthvað annað fyrir restina, þarf að hafa kennsluna eins og hlaðborð þar sem allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Edda.

Þarf að bæta umræðuna um nám án aðgreiningar

Í umræðunni um skóla án aðgreiningar gætir misskilnings, að mati Eddu. Í rannsóknum sínum komst hún að því ólíkur skilningur er lagður í hugtakið nám á aðgreiningar bæði milli starfsfólks og einnig foreldra og nemenda. Lítil umræða um skóla án aðgreiningar hefur farið fram innan veggja skólanna og hvað stefnan þýðir fyrir starf kennara og skipulag skóla, að mati Eddu.

Þessar niðurstöður Eddu eru samhljóma úttektar Evr­ópumiðstöðvar um nám án aðgrein­ing­ar á öll­um stig­um ís­lenska skóla­kerf­is­ins, þ.e.a.s. á leik-, grunn- og fram­halds­skóla­stigi, sem var unnin að ósk menntamálaráðuneytisins. Í henni kom meðal annars fram að skilgreina þarf betur hugtakið skóla án aðgreiningar.  

Innleiðing skóla án aðgreiningar hefur talsvert verið gagnrýnd. „Mér hefur fundist umræðan um stefnu um skóla án aðgreiningar oft hafa verið á þá leið að allt sem miður fer í skólum væri hægt að hengja á stefnuna en það er ekki þannig. Ég hef séð til margra kennara sem leysa þetta vel en þeirra starf fer ekki hátt,“ segir Edda. Hún tekur fram að vissulega megi margt betur fara en innleiðingarferlið taki tíma og allir þurfa að vera vakandi yfir því hvort ákvarðanir og stefnur sem teknar eru séu í takt við hugmyndafræðina.  

Samræmdur hugsunarháttur ríkjandi í menntakerfinu

Skóli án aðgreiningar er byggður hugmyndum um jafnræði og réttlæti en ekki á því að allir séu á sama stað á sama tíma að gera það sama. Stundum hentar nemanda að vera með samnemendum í bekknum að vinna verkefni, stundum hentar að fara annað í minni hóp. „Þetta snýst líka um að það er ekki alltaf sami nemandinn sem þarf að fara eitthvert annað og sú ákvörðun á ekki alltaf að koma utan frá heldur á nemandinn að hafa þar ákvörðunarrétt,“ segir Edda.

Í þessu samhengi bendir hún á að samræmd hugsun sé ríkjandi í skólakerfinu og nefnir samræmd próf í grunnskólum máli sínu til stuðnings. Hún segir að þau stríði í raun gegn þeim áherslum aðalnámskrár grunnskólanna að útskrifa fólk sem býr yfir ákveðinni hæfni, lykilhæfni sem er byggð á grunnþáttum menntunar. Hæfninni er skipt niður í fimm liði eins og t.d. að geta tjáð hugsanir sínar, borið ábyrgð á námi sínu o.fl.   

„Það er gert ráð fyrir að við útskrifum hæft fólk. Kennslan á ekki að ganga út á að fylla fólk af staðreyndum. Heimurinn er öðruvísi. Við erum með alls konar nemendur í skólanum með fjölbreyttan og ólíkan bakgrunn, sumir eru tvítyngdir eða kunna fleiri tungumál. Nemendur búa yfir ólíkri hæfni og áhugasvið þeirra eru misjöfn. Við þurfum að aðlaga skólakerfið að nemendum í stað þess að reyna stöðugt að breyta þeim.“

Edda er sannfærð um að nám án aðgreiningar sé gott …
Edda er sannfærð um að nám án aðgreiningar sé gott fyrir nemendur og skólakerfið í heild. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þurfum að búa til lærdómsumhverfi

Edda hefur enn staðfastari trú á stefnunni um skóla án aðgreiningar eftir að hafa lokið við doktorsritgerðina en áður en hún byrjaði. Edda er sérkennari að mennt og starfaði sem kennari, sérkennari og deildarstjóri stoðþjónustu frá 1993 til 2014. Hún taldi upphaflega mikilvægt að standa vörð um stoðþjónustuna en vill nú leggja ríkari áherslu á samstarf milli kennara og sérkennara og ábyrgð þeirra gagnvart nemendum.

„Við þurfum að styðja betur við kennara og búa til lærdómsumhverfi þar sem sérkennarar og kennarar nýta og deila betur þekkingu sinni sín á milli,“ segir Edda. Hún er bjartsýn á framtíðina og telur að við séum á réttri leið en það megi ekki sofna á verðinum heldur halda áfram. 

Hún er sannfærð um að nám án aðgreiningar sé gott fyrir nemendur og skólakerfið í heild sinni, og sé í raun eina færa leiðin áfram ef við viljum búa í samfélagi sem er án aðgreiningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka