Samkvæmt frumvarpi um breytingar á útlendingalögum sem verður lagt fyrir Alþingi í dag mun fjölskyldan frá Gana geta sótt um endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála verði frumvarpið að lögum, að sögn Magnúsar Davíðs Norðdahl lögmanns fjölskyldunnar sem á að vísa úr landi.
Í lögunum er frestur sá er tilgreindur er í 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga styttur úr 18 mánuðum í 15 mánuði. Fyrsta skref í málinu verður því að sækja um endurupptöku á þeim grundvelli verði frumvarpið að lögum, segir Magnús.
Hann bendir einnig á að sú staða sé uppi að hægt væri að sækja um endurupptöku málsins óháð afdrifum frumvarpsins. „Færa má rök fyrir því að með úrskurðinum frá í gær um endurupptöku málsins á grundvelli heilsufars hafi málsmeðferðartími á æðra stjórnsýslustigi lengst þó svo að upphafleg eldri niðurstaða hefi verið staðfest óbreytt,“ segir Magnús.
Hann ítrekar að öllum tiltækum úrræðum verði beitt til að ná því markmiði að fjölskyldan fái dvalarleyfi hér á landi. Móðirin Mercy Kyeremeh og drengjum hennar þremur, Godwin fimm ára, Emmanuele fjögurra ára og nýfæddu barni, var í gær gefinn 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Staða fjölskyldunnar er afar viðkvæm enda liggja fyrir gögn þess efnis að móðir barnanna sé í mikilli sjálfsvígshættu.