Þarf ekki að afhenda „óleyfishana“

Lögreglan fær ekki heimild til að gera húsleit og fjarlægja …
Lögreglan fær ekki heimild til að gera húsleit og fjarlægja hænur og óleyfishana. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um húsleit á heimili í Mosfellsbæ og að íbúa yrði gert að afhenda óskráðar hænur og tvo „óleyfishana“ sem hann héldi þar, væri hafnað. Í dómi hæstaréttar kom fram að ekki væri fullnægt lagaskilyrðum um meðferð sakamála að leit þjónaði augljósum rannsóknarhagsmunum, en engin leynd hvílir yfir því hvar hænsnin eru geymd, og er ekki ágreiningur um það.

Málið á sér töluverðan aðdraganda, en í maí árið 2016 ákvað heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis á fundi sínum að fjarlægja bæri óleyfishænsni, þar á meðal tvo hana, vegna ónæðis sem þeir yllu, og hefðu gert um árabil, að því er segir í úrskurði héraðsdóms frá 21. september síðastliðnum. Heilbrigðisnefndin vill meina að umrætt heimili tilheyri, samkvæmt opinberum gögnum, þéttbýli Mosfellsbæjar og því gildi samþykkt um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Eigandi hænsnanna mótmælir þessu hins vegar og segir eign sína vera lögbýli og hafi verið á lögbýlaskrá í 46 ár. Þá sé stundaður landbúnaður á jörðinni.

Vafasamt að lögregla noti úrræði um meðferð sakamála

Kærði hann því úrskurð heilbrigðisnefndar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og var aðgerðum frestað uns úrskurður lægi fyrir. Ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar var svo hafnað í febrúar á þessu ári. Hænsnin voru þó aldrei fjarlægð.

Í greinargerð lögreglu í málinu kemur svo fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til meðferðar kæru Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis frá því í mars er varðaði hænsn sem væru haldin án tilskilins leyfis. Í gögnum málsins kemur fram að fjölmargar kvartanir hafi borist frá íbúum í nágrenninu.

Í úrskurði héraðsdóms segir að miðað við þau gögn sem lögð hafi verið fram af eiganda hænsnanna þá liggi sönnunarbyrðin um að hænsnin séu ekki á lögbýli á herðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Því hafi til að mynda ekki verið andmælt að íbúar stundi landbúnað á sömu jörð og hænsnin eru haldin. Deilurnar snúast því ekki um hvort hænsnin eru á staðnum eða ekki, heldur hvort þau eru í raun á lögbýli eða ekki.

Þá segir einnig í úrskurði héraðsdóms að vafasamt megi telja að lögregla geti notast við úrræði laga um meðferð sakamála til að ná fram markmiði sínu, enda sé markmiðið ekki að handataka eiganda hænsnanna og rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem rannsaka á. Kröfu um húsleit og afhendingu hænsnanna er því hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka