Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi álykti að fela ráðherra að skipa starfshóp sem gerir ítarlega fýsileikakönnun á gerð ganga milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum.
Þetta kemur fram í tillögu til þingsályktunar um göng milli lands og Eyja en flutningsmenn eru Sjálfstæðisfólkið Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason og Unnur Brá Konráðsdóttir.
Samkvæmt tillögunni verða kannaðir möguleikar á gerð mismunandi tegunda ganga og kostir og gallar hverrar gerðar metnir auk þess sem unnar verði kostnaðar- og arðsemisáætlanir. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. október 2018.
Segir í greinargerð vegna málsins að þótt Landeyjahöfn hafi sannað sig sem mikil samgöngubót hafi siglingar um hana ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Höfnin hafi verið lokuð vegna sandburðar í allt að 120 daga á ári þegar verst hafi látið.
Fjölmargar ferðir falli niður vegna ölduhæðar og sandburðar yfir bestu sumarmánuði og veldur óáreiðanleiki hafnarinnar íbúum og atvinnulífi, ekki síst ferðaþjónustunni, verulegum vandræðum og tekjutapi.
Hafin er smíði nýrrar ferju sem von er á seint næsta sumar. „Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja mikilvægt að allt kapp verði lagt á að tryggja sem best opnun Landeyjahafnar fyrir nýja ferju þann tíma sem hún verður starfandi en jafnframt að nú þegar verði byrjað að huga að því hvaða samgöngumáti taki við af nýju ferjunni,“ segir í tillögunni.
„Milli lands og Eyja eru 10 km í beinni sjólínu en reiknað er með að göng frá Heimaey að Krossi í Landeyjum verði um 18 km,“ segir enn fremur og því er bætt við að nú þegar liggi fyrir að höfnin í Landeyjum standi ekki undir þeim væntingum að vera heilsárshöfn.
Því sé mikilvægt að hefja undirbúning að því hvað taki við þegar ferjan sem kemur síðsumars 2018 gangi úr sér eftir 10–20 ár. Þá þurfi að liggja fyrir hvað verður gert og ef göng verði kosturinn þurfa þau að vera tilbúin til notkunar á árabilinu 2028–2038.