Taka lán fyrir kosningabaráttunni

Þingflokkur VG.
Þingflokkur VG. Pressphoto.is

Vinstri hreyfingin grænt framboð mun fjármagna kosningabaráttuna framundan með lántöku. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins, í útvarpsþættinum Magasíninu á K100 nú síðdegis.

Í þættinum var ræddur sá kostnaður sem hlýst af því að berjast um atkvæði kjósenda. Katrín sagði að kosningabarátta væri mjög dýr og skaut á, án þess að hafa tölurnar fyrir framan sig, að hún kostaði ekki undir 20 milljónum.

Þeir stjórnmálaflokkar sem fá 2,5% atkvæða í kosningum eða meira, fá fjárframlög frá ríkinu. Framlagið í heild nemur 286 milljónum króna á ári en framlagið skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í kosningum.

VG fékk 7 þingmenn kjörna í kosningunum 2013 og um 11% atkvæða, sem var lækkun um ríflega 10 prósentustig frá kosningunum þar á undan. Flokkurinn fékk um 33 milljónir króna árlega úr ríkissjóði árin 2013 til 2016 en til samanburðar fékk stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, um 81 milljón króna.

Katrín segir í samtali við mbl.is að flokkurinn hafi skorið mjög niður rekstrarkostnað eftir kosningarnar 2013. Nú sé að fara í hönd önnur kosningabaráttan á jafn mörgum árum og því fylgi talsverður aukakostnaður. „Ég vonast til að þessi kosningabarátta verði ódýr og að flokkarnir eyði ekki miklu í auglýsingar.“ Hún bendir á að það eitt að senda bækling í hvert hús á höfuðborgarsvæðinu sé afar kostnaðarsamt, sem sé eitthvað sem flestir flokkar vilji gera.

Katrín segir þó að flokkurinn njóti góðs af því að um fimm þúsund félagsmenn greiði félagsgjöld til VG og það skipti flokkinn miklu máli. „Það er ekkert grín fyrir nýjan flokk að koma sér á lappir.“

Spurð um fjárhæð lánsins sem flokkurinn þarf nú að taka segir hún að það liggi ekki alveg fyrir en að þær upplýsingar verði að finna í ársreikningum flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert