Mál tveggja fatlaðra 16 ára drengja sem fengu ekki skólavist í framhaldsskóla í haust hefur verið til skoðunar og úrlausnar hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá því um miðjan júní. Enn vinnur ráðuneytið að því að leita lausna í málinu í samráði við hlutaðeigandi þjónustumiðstöð í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu, og er vonast til að lausn finnist innan tíðar.
Drengirnir búa á heimili fyrir börn í Þingvaði í Norðlingaholti sem fellur undir Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Sólveig Reynisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvarinnar, segir það fyrst og fremst málefni ráðuneytisins að finna drengjunum samastað í skóla. Hlutverk þjónustumiðstöðvarinnar sé að fylgjast með að ekki sé brotið á þeim og ýta á að þeir fái skólavist sem fyrst.
„Ég á ekki von á að þeir komist inn í framhaldsskóla fyrir áramót en ég vona að þeir fái einhverja lausn,“ segir Sólveig.
Komið hefur fram að ráðuneytið hefur í huga að semja við Ás styrktarfélag um að finna úrræði fyrir drengina. Ekki er búið að ganga frá neinu varðandi þá hjá Ási en þangað hefur verið leitað til að skoða möguleika, að sögn Þóru Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Áss styrktarfélags.
Stefanía Björg Sigfúsdóttir, forstöðukona heimilis drengjanna í Þingvaði, segir ekkert vera að gerast í málefnum þeirra. „Ég get ekki ímyndað mér að lausn sé í sjónmáli innan tíðar og ef ráðuneytið ætlar að semja við Ás þá tekur það ferli sinn tíma. Ás á að vera ígildi skóla en er vinnustaður fyrir fatlaða og verður enginn skóli. Þótt það verði búið til eitthvert úrræði fyrir þá verður það ekkert annað en geymsla. Þeir eiga rétt á fjórum árum í framhaldsskóla og þetta ár verður dregið frá þeim,“ segir Stefanía.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið bendir á að stefna um menntun án aðgreiningar útiloki ekki að nemendur fái tímabundið sérúrræði innan eða utan almenna menntakerfisins, þar sem meginatriðið er að nám og önnur þjónusta sé við hæfi í samræmi við metnar þarfir.
Ástæðan fyrir því að drengirnir komust ekki inn í framhaldsskóla í haust er að starfsbrautir sem henta þeim eru fullar því óvenjufáir nemendur útskrifuðust af þeim síðastliðið vor. Sótt var um pláss fyrir drengina bæði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, þar sem pláss er fyrir um 30 nemendur á starfsbraut, og í Menntaskólanum í Kópavogi, þar sem um 15 nemendur eru teknir inn á starfsbraut fyrir einhverfa. Þeir fengu synjun á báðum stöðum.
„Ég hef stýrt heimilum fyrir fötluð börn síðan 2008 og það hefur aldrei fyrr komið fyrir að barn fái neitun um skólavist. Strákarnir eru 16 ára og það var alltaf vitað að þeir myndu útskrifast úr grunnskóla í vor og að þeir þyrftu pláss í framhaldsskóla,“ segir Stefanía.
Hvorki mennta- og menningarmálaráðuneytið né menntamálastofnun fá tæmandi upplýsingar frá grunnskólum um fjölda fatlaðra nemenda sem þurfa á námsvist á starfsbrautum að halda, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Orsakirnar fyrir því eru ýmsar: „Þar má nefna að grunnskólum er ekki heimilt, samkvæmt lögum, að senda upplýsingar um nemendur til þriðja aðila, heldur bera foreldrar ábyrgð á að upplýsingar berist til hlutaðeigandi. Gæta þarf persónuverndar við öflun upplýsinga og það hefur að vissu leyti staðið í vegi fyrir að menntamálastofnun og ráðuneytið geti kallað eftir ítarlegum upplýsingum um þjónustuþörf fatlaðra nemenda. Verið er að leita leiða til að gera slíka upplýsingaöflun aðgengilega, sem er nauðsynleg forsenda þess að framhaldsskólar geti undirbúið inntöku nemenda sem þangað sækja,“ segir í upplýsingum frá ráðuneytinu.
Drengirnir eru nú heima fram að hádegi með tvo starfsmenn með sér og eftir hádegi fara þeir í frístundastarf hjá Hinu húsinu. „Vegna óvissunar um afdrif þeirra get ég ekki ráðið neitt fast fólk inn. Ég þarf að fá tvo aukastarfsmenn inn alla daga til að vera með þeim á morgnana og þeim redda ég frá degi til dags því ég get ekki ráðið fólk ef það væri svo kannski búið að finna úrræði fyrir þá eftir viku,“ segir Stefanía.
Drengirnir eru einhverfir og með hegðunarröskun og óvissan leggst mjög illa í þá að sögn Stefaníu.
„Þetta hefur áhrif á þá og hefur gert frá degi eitt, allar svona breytingar og rútínuleysi fer mjög illa í þá; einstaklinga sem þrífast á rútínu og skipulagi. Það fer vel um þá heima en við bjóðum ekki upp á skólaþjónustu.“