Fleiri ábendingar um lyktarmengun en áður

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundar með Korpúlfum, félagi eldri borgara …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundar með Korpúlfum, félagi eldri borgara í Grafarvogi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Mönnun á leikskólanum Sunnufold, ólykt frá endurvinnslufyrirtækjum í Gufunesi, mengun í Grafarlæk og lélegt ástand skólalóða voru meðal þeirra málefna sem brunnu á Grafarvogsbúum á fundi með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í gærkvöldi.

Húsfyllir var á fundinum, en í yfirliti sínu yfir þau mál sem eru á döfinni í Grafarvogi nefndi Dagur að töluvert fleiri ábendingar um lyktarmengun frá Gufunesi hefðu borist nú í sumar, en áður. Sagði hann eitt fyrirtækjanna, Íslenska gámafélagið, vera að að undirbúa flutning.

„Ég tók þátt í fyrirtækjadegi í fjölskyldugarðinum nú í sumar, þetta var flottur dagur og boðið upp á grillaðan mat, en enginn hafði lyst á að borða vegna lyktarinnar,“ sagði einn íbúanna sem tók upp lyktarumræðuna. „Það er ekki boðlegt að barnið manns þurfi að halda fyrir nefið og flýja inn.“

Verður að ganga betur

„Við sjáum skýrt á gögnum að þetta hefur aukist mjög mikið í sumar,“ sagði Dagur. „Annað hvort var eitthvað ekki eins og það átti að vera, eða magnið var meira en áður og hugsanlega er þetta blanda af báðu.“

Húsfyllir var á fundinum með borgarstjóra og brunnu málefni skóla …
Húsfyllir var á fundinum með borgarstjóra og brunnu málefni skóla m.a. á íbúum. mbl.is/Anna

Þeirri spurningu hvenær Íslenska gámafélagið flytji upp á Esjumela svaraði hann því til að nokkur ár séu í að það gerist. „Hluti af starfseminni verður aldrei lyktarlaus,en þetta verður að ganga betur,“ bætti borgarstjóri við og kvaðst sammála því að Álfsnesið hentaði betur til moltugerðar en Gufunes.

Annar íbúi dró í efa að Gámafélagið bæri ábyrgð á lyktinni og taldi móttökustað Sorpu líklegri sökudólg.

„Það eru þrír aðilar með starfsemi í Gufunesi sem allir eru lyktargefandi,“ svaraði Guðjón Ingi Eggertsson hjá Heilbrigðiseftirlitinu. „Við höfum starfest lykt frá þeim öllum, en mismikla eftir tímum og aðstæðum. Flestar kvartanir sem við fáum beinast að Íslenska gámafélaginu og þar höfum við oftast staðfest lykt, en það beinist grunur að þeim öllum.“

Moldarvinnslan ekki með starfsleyfi

Sagði Guðjón Heilbrigðiseftirlitið hafa farið fram á ýmsar mótvægisaðgerðir, m.a. aukið innraeftirlit og aukið gæðaeftirlit í fyrirtækjunum, sem og með nýjum tækjabúnaði sem eigi að vinna gegn lyktinni. „Það er verið að vinna að þessu öllu,“ sagði hann, en kvað engin tímamörk hafa verið sett.

„Við vonum þó að auknar kröfur skili árangri. Staðan er þannig að Moldarvinnslan, sem einnig er með moltugerð á svæðinu, er ekki með starfsleyfi enda var Heilbrigðiseftirlitinu lítt kunnugt um þá starfsemi. Þeir eru búnir að leggja inn umsókn núna.“ Moltugerðin hafi hins vegar verið inni í starfsleyfi Íslenska gámafélagsins þar til umfang moltugerðar fyrirtækisins fór að vaxa. „Þá kölluðum við eftir að þeir sæki um sérstakt starfsleyfi fyrir moltugerðina sem er núna í vinnslu.“

Fyrirspurn íbúa um það hver réttur þeirra til andmæla umsóknum um moltuframleiðsluna var ekki svarað.

Gátan um Grafarlækinn ekki upplýst

Nokkrir lýstu einnig yfir áhyggjum af sjónmengun af færslu Björgunar og Hringrásar upp í Gunnunes og sagði Dagur þá vinnslu sem þangað fari hvorki að vera sýnilega frá Grafarvogi né Mosfellsbæ.  

„Það hafa verið farnar kynnisferðir þangað með bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ sem ég tel hafa róað flesta varðandi sýnileika,“ sagði Dagur. 

Ómar Ragnarsson var í hópi þeirra sem óskuðu upplýsinga um olíumengunina í Grafarlæknum og söng hann gamansama vísu að því tilefni.  „Gátan um Grafarlækinn ekki að fullu upplýst,“ sagði Dagur og kvað verið að skoða lausnir á borð við settjarnir til að fanga slíka mengun komi hún upp aftur.

Óttast að vandinn verði ekki leystur í nefnd

Málefni leikskólans Sunnufoldar og lélegt ástand skólalóða Húsa- og Kelduskóla Víkur brunnu einnig á mörgum og fjölmennti starfsfólk leikskólans og foreldrafélög skólanna á fundinn.

 „Við búum við þann veruleika að það er ein deild lokuð á hverjum degi og þess vegna áttu 20 börn þess ekki kost að hitta borgarstjórann sinn í dag,“ sagði faðir með barn á Sunnufold, en borgarstjóri hafði varið deginum í að heimsækja stofnanir og skóla í hverfinu, m.a. Sunnufold.

Gátan um Grafarlækin hefur enn ekki verið leyst að sögn …
Gátan um Grafarlækin hefur enn ekki verið leyst að sögn borgarstjóra. Verið sé þó að skoða að koma fyrir settjörnum til að hindra sambærileg tilvik. Ljósmynd/Aðsend

Lokunin feli í sér að hvert barn þurfi að vera heima þrjá daga í hverjum mánuði. „Þetta setur aðstandendur oft í þá stöðu að þurfa að leysa vandann,“ segir hann og kveður foreldra óttast að vandinn sé stærri en svo að hann verði leystur með einhverri nefnd, fólk sé einfaldlega ekki að fást í störfin

Dagur kvaðst gera sér fulla grein fyrir að ástandið sé erfitt fyrir foreldra og börnin. „Þó að ég viti að leikskólinn reyni að koma til móts við fólk eins og hægt er.“ Von sé á tveimur nýjum starfsmönnum til starfa á Sunnufold og því glitti vonandi í lausn vandans.

Borgarstjóri var þá spurður hvort ekki væri komin tími á að opna á umræðu um langtímalausnir í málefnum leikskóla í stað bráðabirgðaaðgerða.

Ekkert við að vera fyrir börnin

Foreldrafélag Húsaskóla afhenti Degi undirskriftalista foreldra sem eru ósáttir við að framkvæmdum við endurbætur á lóð skólans hafi verið frestað til ársins 2022 og foreldrafélag Kelduskóla Víkur taldi mega rekja háa tíðni eineltis í skólanum til lélegrar aðstæðna á skólalóðinni.

„Leiktækin eru orðin hættuleg,“ sagði eitt foreldra barns í Kelduskóla Vík. „Það er há tíðni eineltis í skólanum og við teljum að það megi að einhverju leiti reka til þess að börnin hafa ekkert við að vera.“

„Kelduskóli Vík ætti að vera nánast forgangsatriði,“ sagði annar og borgarstjóri kvaðst munu koma þeim upplýsingum til skila. „Það er farið í allt strax sem er talið skapa hættu,“ sagði Dagur. „En mér finnst koma til greina að horfa ekki bara á heildarendurskoðun, heldur að við gerum líka minni hluti sem þó gera skólalóðir meira aðlaðandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert