Gætu þurft að hella niður mjólk

Mjólkurbíll frá MS á ferðinni á Suðurlandi.
Mjólkurbíll frá MS á ferðinni á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ef bíll Mjólkursamsölunnar kemst ekki um helgina að Flatey á Mýrum eða bæjanna Brunnárvalla og Hestgerðis, gæti komið til þess að kúamjólk verði hellt niður. Þetta er mat Pálma Vilhjálmssonar, mjólkurbússtjóra MS á Selfossi.

Á Flatey á Mýrum er stærsta mjólkurbú landsins en þar eru mjólkandi kýr um 220 talsins. Eins og sakir standa er þjóðvegur 1 lokaður beggja vegna bæjarins, við Hólmsá og Steinavötn. Vegna vatnavaxta er vegurinn farinn í sundur á fjórum stöðum við Hólmsá en brúin yfir Steinavötn er mjög löskuð.

Ekki er ljóst hvenær hægt verður að opna fyrir umferð á nýjan leik.

„Ég vona að það þurfi ekki að koma til þess að hella niður mjólk,“ segir Pálmi í samtali við mbl.is. Hann segir að alla jafna yrði mjólk sótt á svæðið á morgun en hann segir að menn bindi vonir við að komast yfir Hólmsánna á laugardag eða sunnudag. Það skipti MS ekki öllu máli hvort þeir komist að Flatey og hinna bæjanna að austanverðu eða vestanverðu.

„Við gætum sloppið með þetta fram á sunnudag,“ segir hann, spurður að því hvenær mjólk færi að skemmast.

Hann segir aðspurður að Flatey framleiði töluvert magn mjólkur en hefur ekki tölurnar á hraðbergi. „Þetta er stórt og mikið bú.“

Mjólkurbúið á bænum Flatey á Mýrum er stærsta kúabú landsins. …
Mjólkurbúið á bænum Flatey á Mýrum er stærsta kúabú landsins. Á því eru 220 kýr mjólkandi, auk annars búpenings. mbl.is/Sigurður Bogi
Hér má sjá helstu staðina þar sem menn hafa þurft …
Hér má sjá helstu staðina þar sem menn hafa þurft að glíma við vatnselginn. mbl.is/kort
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert