Gjald verði lagt á helstu stofnvegi

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hanna

Lagt er til að ómönnuðum gjaldhliðum verði komið fyrir á helstu stofnvegum á Suðvesturlandi. Þetta voru niðurstöður í skýrslu starfshóps sem var skipaður vegna málsins. 

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sat í starfshópnum og kynnti skýrsluna á samgönguþingi sem var haldið í Hveragerði í dag. Samkvæmt henni gætu eftirfarandi vegakaflar orðnir tilbúnir til framkvæmda á árinu 2018:  

  • Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur
  • Suðurlandsvegur: Biskupstungnabraut - Kambarætur
  • Suðurlandsvegur: Bæjarháls - Vesturlandsvegur
  • Vesturlandsvegur: Skarhólabraut - Hafravatnsvegur

Heildarkostnaður við vegakaflana er metinn 56 milljarðar króna. Hægt væri að hefja framkvæmdir á næsta ári og ljúka þeim á átta árum en í tillögunni felst að fjárfestingin verði greidd til baka á 20 árum. 

Hækkun eldsneytis og bifreiðagjalda er ein þeirra leiða sem voru skoðaðar en ókostur hennar er sagður vera að þau leggist jafnt á alla landsmenn og þar að auki séu skatttekjur sem þessar ekki merktar ákveðnum málaflokki. 

Annar möguleiki er gjaldtaka og voru þrír valkostir nefndir til sögunnar. Í fyrsta lagi væri hægt að innheimta gjald með því að mæla ekna vegalengd. Víða í Evrópu er akstur þungra ökutækja mældur með gervihnattastaðsetningu en skýrsluhöfundar telja ólíklegt að slík fjárfesting borgi sig á Íslandi.

Í öðru lagi væri hægt að koma fyrir ómönnuðum gjaldhliðum. Ein aðferð sem er nefnd er að myndavél lesi sjálfvirkt skráningarnúmer ökutækisins þegar ekið er gegnum hliðið. 

Í þriðja lagi er svokallað vinjettukerfi. Í því felst að kanna með álestri af vinjettunni eða skráningarnúmeri hvort viðkomandi ökutæki hafi keypt aðgang að viðkomandi vegi. Hægt væri að kaupa aðgang á bensínstöðvum eða í öðrum verslunum, til dæmis í 10 daga, tvo mánuði eða eitt ár.

Þótti gjaldhlið álitlegasti kosturinn. Gjaldtaka væri háð því hvaða leið yrði farin, frá því að vera 50% upp 100% af gjaldskrá Hvalfjarðarganga samkvæmt skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert