Gögn sem fyrirtækið Kaffitár aflaði benda til „alvarlegra brota á lögum“ af hálfu Isavia við gerð samninga um veitingaþjónustu á Keflavíkurflugvelli árið 2014.
Þessu er haldið fram í bréfi lögmanns Kaffitárs til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í þessum mánuði og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Meðal þess sem Isavia er borið á brýn er að hafa ekki fylgt meginreglu útboðsréttar við mat á tilboðum og tilboðsgjöfum í samkeppni um leigurými. Tvö félög, Lagardere Services og Joe Ísland ehf., fengu leigurýmin.
Fram kemur í bréfi lögmannsins að samningar Isavia við þessi tvö félög séu „mun umfangsmeiri og verðmætari en samkeppnislýsing gaf til kynna. Að auki gerði Isavia, í framhaldi af samkeppninni, samninga sem innihalda ákvæði um verulegar og nákvæmt orðaðar hömlur á samkeppni þriðju aðila í Leifsstöð næstu sjö árin. Þau samningsákvæði virðast alvarlegt brot á 10. grein samkeppnislaga,“ segir m.a. í bréfi lögmannsins.