Ákvörðun Ríkisútvarpsins um að greiða 2,5 milljónir fyrir sátt í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gagnvart fjórum fjölmiðlamönnum á fréttastofu RÚV er fordæmalaus í sögu Ríkisútvarpsins. Formaður Blaðamannafélags Íslands, Hjálmar Jónsson, segist trúa því að RÚV hafi gætt sinna hagsmuna og tekið ákvarðanir með faglegum hætti í þessu máli.
Athygli hefur vakið að svo virðist sem RÚV þurfi ekki að biðjast afsökunar á þeim ummælum sem um ræðir og þurfi þar að auki ekki að draga fréttirnar til baka eða leiðrétta.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi útvarpsstjóri, spurði á Facebook-síðu sinni í vikunni hvort RÚV væri „að borga peninga til að þurfa ekki að biðjast afsökunar?“.
„Ef fréttin er rétt þá stendurðu við hana – málaferli eða ekki. Ef hún er röng þá leiðréttirðu hana og biðst afsökunar,“ skrifaði Páll enn fremur.
Formaður Blaðamannafélagsins, Hjálmar Jónsson, segir að ritstjórnir verði að hafa hagsmuni fyrirtækisins og tjáningarfrelsisins í huga þegar svona mál komi upp. „Þetta eru sjálfstæðar ritstjórnir úti um allan bæ og ég held að maður hljóti að trúa því að þær kunni fótum sínum forráð, með hagsmuni fyrirtækisins og tjáningarfrelsisins í huga. Það er ekkert hægt að hafa aðra skoðun á því,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.
„Hvort sem það er RÚV eða Morgunblaðið sem á í hlut, þá hljóta menn að vega og meta svona hluti með faglegum hætti og taka ákvarðanir byggðar á faglegum sjónarmiðum,“ segir Hjálmar.
Nú virðist þessi sátt fela í sér að RÚV standi við fréttirnar – ég hef ekki rekist á fordæmi fyrir því. Manst þú eftir einhverju slíku?
„Venjulega fara meiðyrðamál bara sína leið fyrir dómstólunum og eins og menn þekkja hafa íslenskir dómstólar verið með undarlegar áherslur í gegnum tíðina varðandi tjáningarfrelsi. Þess vegna hafa blaðamenn og Blaðamannafélagið þurft að beina málum til mannréttindadómstólsins, með árangri. Ég trúi því að þetta standi til bóta og að íslenskir dómstólar hafi lært sína lexíu og hafi það hugfast hversu tjáningarfrelsið er mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi.
Eins og þú segir, það liggur fyrir þarna einhver samkomulagsgreiðsla og ég trúi því að RÚV gæti sinna hagsmuni og taki ákvarðanir með faglegum hætti. Fréttirnar standa, samkvæmt þessu.“
Fréttin hefur verið uppfærð