Bygging bráðabirgðabrúar á Steinavötnum hefst af fullum krafti á morgun. „Tól og tæki eru á leiðinni og á morgun verður byrjað að reka niður undirstöður,“ segir Reynir Gunnarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Höfn í Hornafirði, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag var greint frá því að brúin er svo illa farin að byggja þarf nýja. Brúin er því lokuð allri umferð, hvort sem er akandi eða gangandi. Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar og vonast Reynir til þess að framkvæmdir geti hafist að fullu á morgun. Áætlaður byggingartími bráðabirgðabrúar er um ein vika ef allt gengur að óskum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er vegurinn frá Steinavötnum lokaður til austurs. Þjóðvegurinn við Lambaleiksstaði er í sundur þar rétt austan við og afmarkar það því þá það svæði sem er án samgangna á landi.
Nú stendur yfir vinna við að loka þeim skörðum sem hafa orðið í veginnn við Hólmsá. „Það gengur svona þokkalega, það rignir ekki mikið hérna núna en það spáir rigningu í nótt,“ segir Reynir. Búið er að loka fyrsta skarðinu af þremur á þjóðvegi 1, við eystri lokunina. Gröfur eru í ánni þar sem reynt er að veita ánni frá svo hægt sé að loka flóðavarnargörðum hennar.