Stjórn FÍB leggst alfarið gegn veggjöldum

Álögur á ökumenn myndu í sumum tilfellum hækka um allt …
Álögur á ökumenn myndu í sumum tilfellum hækka um allt að 120 þúsund krónur á ári með tilkomu veggjalda. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeiganda er alfarið á móti fyrirhuguðum veggjöldum á helstu stofngjöldum á Suðvesturlandi og telur að verið sé að auka stórlega skattálagningu á ökutækjanotkun almennings á þessu svæði án þess að jafnræðis sé gætt. 

Frétt mbl.is Gjald verði lagt á helstu stofn­vegi

Skattar yrðu 300 til 400 þúsund krónur á ári. 

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að verið sé að þyrla ryki í augu almennings með því að tala um veggjöld því að í raun sé um að ræða aukna skattlagningu á tiltekinn hóp bifreiðanotenda. „Ef við tökum dæmi um bifreiðaeiganda sem býr á Suðurnesjum en vinnur á höfuðborgarsvæðinu þá erum við miðað við meðalakstur og ferðir að horfa fram á að álögur á hann hækki um 60 til 120 þúsund krónur á ári ofan á þær 200 til 250 þúsund krónur sem hann greiðir nú þegar í skatt vegna eldsneytisnotkunar af bifreið sinni. Það eru bara skattar sem renna í ríkissjóð fyrir utan bifreiðagjöld og allan anna rekstur vegna bifreiðarinnar.“

Það er okkar mat að stjórnvöld á liðnum árum hafi brugðist vegna þess að þau hafa verið mjög dugleg að leggja á og hækka skatta á bifreiðaeigendur án þess að nota þá til vegaframkvæmda. Núna er meira að segja búið að afnema eyrnamerkinguna og núna gengur allt inn í sömu hítina. Það bara gengur allt inn í ríkissjóð og framlög koma þaðan.“

Um 6 ár eru liðin frá því að FÍB stóð fyrir undirskriftarsöfnun gegn vegtollum á leiðum til og frá höfuðborginni. „Mér þykir djarft að fara í þetta rétt fyrir kosningar miðað við hversu margir skrifuðu undir í undirskriftasöfnuninni hjá okkur hér um árið. Sú undirskriftarsöfnun var svo gott sem ekkert auglýst en samt sem áður skrifaði 41 þúsund manns undir á stuttum tíma.“

Margt skýtur skökku við

Runólfur telur að veggjöldin væru kannski réttlætanleg ef notendur væru að fá eitthvað fyrir gjöldin og telur allan samanburð við Hvalfjarðargöng furðulegan. „Þetta er töluvert önnur framkvæmd en til að mynda Hvalfjarðargöng. Hér er verið að ræða vegi sem almenningur er búinn að vera að byggja upp og á í rauninni í gegnum sínar skattgreiðslur til margra ára. Almenningur hefur raunar verið svikinn um vegbætur á þessum köflum að hluta þar sem  úrbótum hefur ótt og títt verið lokað í pólitíkinni. Þar að auki skýtur það skökku við sem fram kom á samgönguþinginu í gær að til standi að hefja gjaldtökuna strax ellegar við upphaf framkvæmda, áður en framkvæmdum yrði lokið. Þannig að fólk væri að keyra óbreytta vegi sem þegar hafa verið greiddir með sköttum áður en framkvæmdum yrði lokið. Þannig að fólk væri að keyra óbreytta vegi og jafnvel með hindranir vegna framkvæmda en borgaði samt vegtoll. Það er svo margt sem hrópar á mann í þessum tillögum,“ segir Runólfur. 

Þá bendir Runólfur á að á sama tíma og lagt sé til að leggja á veggjöld hafi verið lagt til í fjárlögum fyrir næsta ár að hækka skatta á bifreiðanotkun um 9 milljarða án þess að framlög til vegaframkvæmda verði hækkuð um krónu. „Það er einfaldlega verið að kasta ryki í augu almennings með því að kalla þetta notkunargjöld. Það er nú þegar verið að greiða notkunagjöld og það að verið sé að jafna einhver gjöld er einhver mesti orðhengilsháttur sem ég hef orðið vitni að,“ segir Runólfur. 

Frétt mbl.is Bens­ín og dísil hækka um 8 og 18 kr.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mikill rekstrarkostnaður

Í tillögum starfshópsins sem kynnar voru í gær kom fram að lagt væri til að ómönnuðum gjaldhliðum yrði komið fyrir á helstu stofnvegum á Suðvesturlandi, en Runólfur bendir á að tölur vegna slíkrar uppbyggingar liggi fyrir frá því að slíkum hliðum var komið fyrir í Stokkhólmi. „Uppbygging á svona kerfi með rafrænum gjaldhliðum og innheimtukerfi er gífurlega dýr. Þetta var gert í Stokkhólmi þegar sett var gjald á það að keyra inn og út úr borginni til að reyna að minnka umferð. Það skal tiltekið í þessu samhengi að kjarni Stokkhólms er einfaldari hvað þetta varðar en höfuðborgarsvæðið og sennilega færri inn- og útgönguleiðir þar. Kostnaðurinn þar við að koma upp svona hliðum nam 25 milljörðum króna og notkunin þar er margföld á við það sem hún yrði nokkurn tímann hér á landi, samt sem áður segja Svíarnir að kerfið sé frekar dýrt í rekstri vegna þess að þar búa ekki nema 10 milljónir.“

30% álag vegna gjaldtöku

Runólfur bendir jafnframt á að kostnaður við rekstur og yfirbyggingu vegna gjaldtöku sé alltaf einhver. „Á síðasta ári greiddu vegfarendur 1.400 milljónir í vegtoll undir Hvalfjarðargöng en þar af fóru 500 milljónir í arð til eigenda, tekjuskatt og rekstur yfirstjórnar og skrifstofu. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem bifreiðaeigandi leggur til er 30% álag í annað. Við vildum gjarnan nota þessar 500 milljónir í aðrar framkvæmdir. Stundum finnst manni eins og að stjórnmálamenn þurfi að hengja upp á vegg hjá sér að Ísland sé örríki og að hér búi aðeins 340 þúsund manns,“ segir Runólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert